148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

stjórn fiskveiða.

6. mál
[16:08]
Horfa

Flm. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Með því að bjóða út aflaheimildirnar fá allir að bjóða í. Núna er þetta lokað kerfi. Núna er þetta þannig að það eru bara þeir sem hafa fengið úthlutaðan kvóta sem geta boðið í kvóta. Og þeir gera það. Núna er kílóið af þorski, eða síðastliðið haust, að fara á 170 kr. á útboðsmarkaðnum sem ríkið sér ekki um. Það verð rennur ekki í vasa þjóðarinnar heldur til útgerðarmannanna sem hafa fengið úthlutaðan kvóta og eru með sinn útboðsmarkað og fá 170 kr. fyrir kíló af þorski á meðan veiðigjaldið er 22,98 kr.

Þegar hv. þingmaður talar um að kerfið sé sjálfbært mótmæli ég því harðlega. Hver er skilgreiningin á sjálfbærni? Umhverfið þarf að vera í lagi og já, það er í lagi. Með því að setja kvótakerfið á stýrðum við veiðunum og við njótum ávinnings af því núna. Efnahagslega? Já, með framsalinu var t.d. komið á efnahagslegu hliðinni. En samfélagshliðin er ekki í lagi. Það er ekki í lagi á meðan samfélögin fá ekki að njóta fulls verðs fyrir auðlindina, meðan fólkið í landinu finnur ekki fyrir því að þarna sé með réttlæti verið að útdeila þessum gæðum. Þá er samfélagslegi þátturinn ekki í lagi. Þar með er kerfið ekki sjálfbært.