148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

stjórn fiskveiða.

6. mál
[16:16]
Horfa

Flm. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Þegar við ræddum viðbótaraflaheimildirnar á síðasta þingi voru margir stjórnarliðar sem sögðu að við ættum ekki að gera neitt í málinu, og reyndar heyrðust þær raddir líka hjá stjórnarandstöðunni, á meðan nefnd væri að störfum til að reyna að taka utan um allt kerfið. Ég er ósammála því að ekki megi gera neitt á meðan nefnd er að störfum eða á meðan verið er að reyna að hugsa upp kerfisbreytingu. Það er náttúrlega ekkert verið að gera núna og það er ekki á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar. Við höfum verið með fleiri nefndir og það hefur ekki komið neitt út úr þeim. Ég vil segja: Drögum línu í sandinn. Við getum alveg talað um þá úthlutun á kvóta sem fyrir er og viðgengst og allt það og haldið áfram að vera með alls konar nefndir um það. En höldum ekki áfram að úthluta viðbótaraflanum eins og ekkert sé. Stoppum þar. Við erum ekki að taka neitt af neinum. Við erum aðeins að segja að hér sé viðbót sem við fáum vegna þess að við höfum passað upp á auðlindina og þorskurinn fjölgar sér meira en við sáum fyrir. Við bjóðum það út. Eins og ég sagði hefur aukningin verið 40 þús. tonn á síðustu þremur árum. Það munar um 40 þús. tonn. Ég ímynda mér að þau verði 20 þús. á næsta fiskveiðiári. Við eigum að gefa öllum tækifæri til að bjóða í það. Þá fáum við líka að sjá hvers virði auðlindin er. (Forseti hringir.) Hvað eru útgerðarmenn tilbúnir til að borga fyrir hana?