148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

stjórn fiskveiða.

6. mál
[16:18]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Til að undirstrika það þá finnst mönnum kerfið ósanngjarnt og stöðugleika vanta, útgerðarmenn hafa jafnvel sagt að ekki sé nógu mikill stöðugleiki, nógu mikill fyrirsjáanleiki í kerfinu eins og það er. Meira að segja þegar makríllinn kom inn í lögsöguna og það átti að fara að úthluta honum á einhverjum forsendum vildi stjórnarmeirihlutinn fara út í það að sex ár þyrfti til að segja upp, fyrst yrði úthlutað til tíu ára eða eitthvað slíkt, alla vega eitt ár í senn, en alltaf þyrfti sex ár til þess að segja upp. Það væri hægt að gera þetta þannig að menn gengju að kvótanum vísum í jafnvel 15–20 ár ef það væri þannig að menn keyptu alltaf á ársgrundvelli eða leigðu örlítið af ríkinu og borguðu fyrir það ákveðið verð til miklu lengri tíma, sex ára eins og var sagt í þessu tilfelli eða lengri tíma. Þannig væri hægt að fá meiri fyrirsjáanleika og stöðugleika, sem er ekki til staðar í kerfinu núna. Sér hv. þingmaður ekki fyrir sér að í útboðsferli væri hægt að skapa slíkan stöðugleika, sem er ekki til staðar í kerfinu eins og það er í dag?