148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

stjórn fiskveiða.

6. mál
[16:19]
Horfa

Flm. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég sé fyrir mér að þetta væri betra kerfi og deilurnar og að ósættið sem hefur verið í kringum kerfið myndi þagna, vegna þess að eigandi auðlindarinnar, sem er þjóðin, og þeir sem nýta sér hana voru búin að koma sér saman um verð. Það eru ekki stjórnmálamenn sem ákveða hvað kílóið á að kosta í veiðigjaldi. Það er spillingargildra, það er augljóst mál. Ég hef verið fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögu sem gengur út á það hvernig við eigum að skipta veiðigjaldinu og að stærsti hlutinn eigi að fara til sveitarfélaganna þannig að þau geti byggt upp atvinnutækifæri, búið sig undir að kvótinn gæti farið o.s.frv. Það held ég að muni (Forseti hringir.) líka hjálpa til við að búa til samfélagslegu sáttina, ef það er sýnilegt (Forseti hringir.) hvernig henni er deilt út um landið.