148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

stjórn fiskveiða.

6. mál
[16:21]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Nú er aftur verið að mæla fyrir þessu ágæta frumvarpi sem ég er meðflutningsmaður að. Ég var að vísu ekki meðflutningsmaður að því síðast en engu að síður studdi ég það þá og styð það enn þá vegna þess að þetta er mjög gott frumvarp.

Stuðningurinn byggir að hluta til á stefnu Pírata. Í sjávarútvegsstefnu Pírata segir, með leyfi forseta:

„Íslenska ríkið, fyrir hönd þjóðarinnar, á að bjóða aflaheimildir upp til leigu á opnum markaði og skal leigugjaldið renna í ríkissjóð. Skulu öll úrslit uppboða vera opinberar upplýsingar.“

Í þessu er verið að vísa í ákveðinn sannleik sem virðist hafa farið svolítið forgörðum í andsvörum hér áðan: Það að fólk hafi keypt nýtingarrétt á þessum auðlindum hefur ekkert með einhvern eignarrétt að gera. Það segir bókstaflega í 1. gr. fiskveiðistjórnarlaga að þetta sé ævarandi eign þjóðarinnar, þetta sé ekki eitthvað sem hægt sé raunverulega að kaupa. Ef einhver segði mér að ég mætti kaupa eitthvað, það væri einhver framsalsréttur en aftur á móti myndi ég ekki eiga viðkomandi hlut myndi ég ekki vera neitt afskaplega spenntur fyrir þeim viðskiptum, með fullri virðingu fyrir þeim sem hafa gert það.

Kjarninn í þessari tillögu er svolítið margþættur. Í fyrsta lagi er þetta hófsöm tillaga. Það er eingöngu verið að tala um að taka inn í uppboðskerfi þær viðbætur sem koma við núverandi heimildir. Eins og kom fram í góðri framsögu hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur eru þetta um 40 þús. tonn af þorskkvóta sem hafa bæst við núna á síðustu árum. Lauslega reiknað telst mér til að þetta sé söluverðmæti upp á 9,5 milljarða, plús/mínus einhver hundruð milljóna. Hluti ríkisins hefur þá væntanlega verið í kringum 80 millj. kr. miðað við þessa krónutölu, 21 kr. á kíló. Þetta er náttúrlega á ársvísu. Þessi mikla aukning hefur skilað sér töluvert mikið til þeirra sem hafa fengið úthlutað á forsendum kerfisins eins og það er. Þessi hófsama tillaga um að reyna að skoða aðrar leiðir gengur bara fyrst og fremst út á sanngirni. Þetta skapar nefnilega öllum jafna stöðu. Þetta skapar öllum þá stöðu að geta farið að bjóða í.

Mér finnst alltaf frekar undarlegt að frumvarp af þessu tagi kemur frá félagshyggjuflokkum og helstu andstæðingar þess eru svokallaðir markaðshyggjuflokkar, markaðshyggjumennirnir sjálfir vilja ekki fara leið markaðarins og treysta því að eðlileg viðskipti muni leiða af sér eðlilega niðurstöðu.

Mótbyrinn gengur einmitt svolítið mikið út á að talað er um mikinn skort á þekkingu, fólk veit ekki hvernig þetta muni ganga fyrir sig. Uppboðskerfi er fólki einhvern veginn hulin ráðgáta þrátt fyrir að þau hafi verið nýtt í þúsundir ára eða svo gott sem. Útfærsluatriðin hér skipta auðvitað miklu máli. Enginn sem ég hef heyrt tala fyrir þessu er að tala um að það eigi bara að bjóða hæstbjóðanda að hirða allan pottinn. Það stuðlar auðvitað ekki að sanngirni eða jöfnu aðgengi. Við verðum að horfa til þess að það eru til bókstaflega tugir mismunandi tegunda uppboðskerfa sem eru vel þekktar, hvort sem eru bresk uppboð, hollensk uppboð, uppboð þar sem verðið er markað af meðaltali boða o.s.frv. Í ofanálag eru til þúsundir útfærsluaðferða á hverri og einni einustu tegund. Þetta skýrist af því að fólk hefur verið að pæla í því hvernig uppboð geti gengið fyrir sig í ansi langan tíma.

Auðvitað þurfum við kannski smá tíma til að byggja upp þekkingu áður en við dembum öllu kerfinu yfir í þetta form en þessi tillaga skapar einmitt svigrúm til þess að við getum byggt upp þessa reynslu, fundið út hvaða aðferð er heppilegust, hvaða leið við getum notað til þess að allir hafi sanngjarnan og réttlátan aðgang að þessu.

Jú, byggjum upp þessa reynslu. Þetta er alveg borðleggjandi. Byggjum hana upp einmitt með því markmiði að stuðla að sátt. Því sáttin sem oft er talað um að vanti í sjávarútveginum er ekki til í dag. Hún hefur mér vitandi aldrei verið til. Hún verður aldrei til meðan það er bara haldið áfram að gera það sama. Ósættið kemur ekki til vegna þess að einhverjir séu óhressir með að það skuli vera misskipting í kerfinu núna, það kemur til vegna þess að það er gulltryggt að misskiptingin mun halda áfram út í hið óendanlega. Með því að fara út í svona markaðsleið eins og margir flokkar hafa talað fyrir er verið að skapa möguleikann á því að búa til einhvers konar raunverulega sátt til framtíðar.

Mér verður hugsað til ákveðins dæmis í viðskiptasögu heimsins þegar millilandaflug yfir Atlantshafið var fyrst að aukast. Í Bandaríkjunum á þeim tíma voru ansi mörg flugfélög, tvö voru áberandi stærst, sem höfðu öll áhuga á að fara í millilandaflug yfir Atlantshafið. Þau stærstu voru Pan Am og TWA sem vildu sinna þessum markaði. Þá kemur Bandaríkjaþing og segir: Nei, flug yfir Atlantshafið er þess eðlis að eingöngu eitt flugfélag getur sinnt því. Það flugfélag verður að sjálfsögðu að vera það stærsta á markaði. Það voru búnar til reglur sem takmörkuðu heimild allra annarra flugfélaga til að taka þátt í þessum flutningum. Þetta var í rauninni það sem gerði útslagið fyrir TWA og gerði það að lokum gjaldþrota ásamt ansi mörgum öðrum flugfélögum á þeim tíma.

Augljóslega, ef maður kafar ofan í þetta, var þessi ákvörðun ekki tekin algerlega af handahófi. Hún kemur til vegna þess að hagsmunaaðilarnir sem voru stærstir hjá Pan Am vildu að reglurnar væru svona til þess að þeir fengju að stýra markaðnum alveg eins og þeim hentaði. Umræðan er svolítið á þennan veg á Íslandi og hefur verið mjög lengi. Það er verið að búa til og það er til á Íslandi regluverk í kringum fiskveiðistjórn sem stuðlar að því að það verði samþjöppun á markaðnum. Þessi samþjöppun er að ná einhvers konar jafnvægi eða gæti hugsanlega verið að gera það þangað til eitthvað breytist. En er þetta endilega jafnvægi sem er réttlátast fyrir samfélagið? Það eru mörg mjög góð, mjög burðug fyrirtæki sem sinna sjávarútveginum á Íslandi alveg afskaplega vel. Við þekkjum þessi fyrirtæki. Þau standa sig gríðarlega vel. En það er samt tilfellið að það eru fyrirtæki sem gætu gert stærri hluti og keppt við stærstu fyrirtækin í greininni ef aðstæður væru með eðlilegu móti. Að fara yfir í uppboðskerfi er leiðin að því að búa til jafnan leikvöll þar sem allir geta raunverulega keppt á markaðnum og skapað sem mest verðmæti fyrir Ísland. Það er bara þannig. Frjálsir markaðir vinna að lokum. Þeir eru betri en handstýrðir markaðir sem er stjórnað eftir pólitískum geðþótta.

Að lokum langar mig til að gera greinarmun á einu mikilvægu atriði sem mér finnst mjög oft fara í ákveðna flækju þegar við ræðum þessa hluti á Alþingi og úti í samfélaginu. Það er sjálfbærni. Við verðum að gera greinarmun á stýringu á auðlindum, þ.e. stýringu á aðgengi að þeim auðlindum sem eru til, sem við gerum með því að Hafrannsóknastofnun gefur út tillögur og þær eru byggðar á vísindalegum rannsóknum. Það kerfi er ótrúlega gott. Hins vegar er það stýring á því hverjir njóta góðs af auðlindunum, sem er allt annar vinkill. Ég hef ekki í svipinn nein dæmi um að fólk hafi verið að mótmæla því hvernig við stýrum auðlindunum, en það er ekki sátt á Íslandi um það hvernig við stýrum aðgengi að auðlindunum, þ.e. hverjir njóti góðs af þeim. Með því að taka þetta litla skref, taka upp uppboðskerfi á þessu litla umframmagni sem bætist við á hverju ári, nota tækifærið til þess að búa til sanngjarnara kerfi, byggja upp þekkingu og reynslu, læra hvernig við eigum að gera þetta, förum við rétta leið í að mynda líka sátt um hverjir geta nýtt auðlindina.