148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

stjórn fiskveiða.

6. mál
[16:32]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegi forseti. Ég ætla svo sem ekki að lengja þessa umræðu sérstaklega, ætlaði bara að ítreka það sem ég sagði í andsvari við hv. þingmann, fyrsta flutningsmann þessa máls, að hér er í rauninni verið að slá fram ákveðnum fullyrðingum. Það er verið að leggja til ákveðnar tilraunir án þess að þær séu að mínu viti á nokkurn hátt rökstuddar eða gefnar leiðbeiningar um útfærslu, hvað þá reynt að koma með einhvern haldbæran rökstuðning fyrir að þetta sé betra en það sem við höfum í dag. Það eru jú settir fram einhverjir frasar sem við heyrum oft varðandi stórar útgerðir og eitthvað svona dótarí. En það sem mestu skiptir, finnst mér, er að ekki er reynt einu sinni að færa rök fyrir því að þessi leið hafi einhver jákvæð áhrif á byggðir landsins.

Fram kemur í frumvarpinu, fyrirgefið, í máli hv. flutningsmanns, að það eru líklega eingöngu Færeyingar sem hafa farið af stað með uppboðskerfi í fiskveiðum eða auðlind sem þessari. Hér er vísað í Norðmenn, það er um olíuna. Ég velti hreinlega fyrir mér hvort til séu einhverjir litlir olíukóngar í Noregi. Ég bara þekki það ekki. Er það ekki allt annað umhverfi og allt annar heimur sem þar er í gangi?

Mér finnst, eins og ég hef sagt áður og sagði m.a. meðan ég var ráðherra sjávarútvegsmála, að ef menn ætla sér að fara þá leið sem Færeyingar eru að fara eða gæla við þá hugmynd eiga menn í það minnsta að sýna ábyrgð og bíða og sjá hvernig tekst til hjá þeim. Auðlindin er ekkert að fara frá okkur, kerfið virkar eins og það er í dag. Menn geta haft skoðun á því hvort það sé réttlátt og allt það en það virkar ágætlega. Mér finnst býsna mikil ábyrgð falin í því að fara af stað og ætla að taka upp eitthvað sem ekki er komin nein reynsla á í raun, menn ekki búnir að sjá þær dýfur og hæðir sem geta komið í þetta hjá okkar ágætu nágrönnum í Færeyjum.

Kerfið í dag er ekki gallalaust. Við þekkjum það. Það er hins vegar ágætt að mörgu leyti. Það hefur skapað ákveðinn stöðugleika í greininni. Helsti óstöðugleikinn er kominn til vegna okkar stjórnmálamanna. Það gengur ágætlega í greininni, misvel eins og gengur. Það hefur orðið samþjöppun og hún er ekki endilega til góðs. En ég held að frumvarp sem þetta myndi flýta og auka samþjöppun. Við vitum alveg, alla vega við sem tölum við fólkið úti á akrinum — svolítið skrýtið að segja fólkið úti á akrinum þegar við erum að tala um sjávarútveg — en fólkið sem er að sýsla í þessari atvinnugrein hefur áhyggjur. Menn sem eru með litlar og meðalstórar útgerðir eru að velta fyrir sér að hætta, selja, vegna þess að óstöðugleikinn í pólitíska umhverfinu er svo mikill.

Virðulegi forseti. Ég reikna með að frumvarpið fái góða meðferð í atvinnuveganefnd og komi svo aftur til umræðu í þinginu. Ég hlakka bara til að fylgjast með hvernig það mun þróast.