148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

stjórn fiskveiða.

6. mál
[16:38]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef kerfi Færeyinga er svona magnað hefði vitanlega verið leikur einn fyrir flutningsmenn frumvarpsins að leggja það hreinlega til. En þar sem ekki er komin reynsla á það, við vitum ekkert hvernig það gengur, hafa flutningsmenn frumvarpsins væntanlega ekki treyst sér til að leggja til leið Færeyinga. Þess vegna segi ég enn og aftur að frumvarp þetta er algerlega ótímabært. Það er ótímabært að fara að gera einhverjar tilraunir á Íslandi með eitthvað sem er verið að gera tilraunir með annars staðar. Sjáum hvernig það gengur, hvernig til tekst. Ef þetta er stórkostlegt, ef þetta skilar meiri dreifingu á aflaheimildum, tryggir byggðirnar í Færeyjum eða að ríkið fái afgjald fyrir afnot af auðlindinni, ef þetta tryggir alla þessa stóru hagsmuni sem um ræðir, þá skoðum við það bara, að sjálfsögðu. En það er engin reynsla af þessu. Við eigum ekki að fara í sömu tilraunaverkefni og aðrir, finnst mér. Mér finnst þetta annaðhvort eitthvert vinsældafrumvarp eða ekki hugsað til enda.

En ég vil líka segja að það sem er eiginlega verst fyrir atvinnugreinina í dag er að við erum alltaf í endalausri umræðu um þetta kerfi og að þeir sem í því eru séu svona og svona, menn séu að græða og græða. Þetta er mjög lýjandi fyrir þá sem starfa í greininni, hvort sem það eru einn eða tveir karlar með trillu eða stórt fyrirtæki með tugi manna í vinnu. Stærðin þarna skiptir engu máli. Það er vont fyrir alla sem eru í einhverri atvinnugrein að búa við óvissu, upphrópanir og slíkt. Þess vegna skapar samþykktin flótta í greininni. Meðal annars, ekki bara, en meðal annars. Það þarf nefnilega að gefa mönnum svolítinn frið þannig að við getum haldið áfram að sjá það sem við höfum reyndar séð undanfarin eitt, tvö, þrjú, fjögur ár, fjárfestingar og gríðarlega nýsköpun. Ég hugsa að það sé engin atvinnugrein á Íslandi, ég ætla að leyfa mér að fullyrða það, það þarf þá bara að reka það ofan í mig, sem leggur jafn mikið til nýsköpunar og sjávarútvegurinn. Hafi ég rangt fyrir mér þá komið þið með það.