148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

stjórn fiskveiða.

6. mál
[16:40]
Horfa

Flm. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hugmyndin með útboði á aflaheimildum er að reyna að skapa einhverja sátt í kringum kerfið. Það er ekki sátt um kerfið eins og það er. Það verður ekki á meðan við höldum áfram á þessari braut. Nú ætlar ríkisstjórnin, sem nýtekin er við, að lækka veiðigjöldin enn. Hún hefur boðað það. Við sem flytjum þetta frumvarp segjum: Hættum að gefa kvótann. Við skulum ekki vera að taka af það sem fyrir er en drögum bara línu hér í sandinn og finnum markaðsverð fyrir viðbótarkvótann. Hvað er hættulegt við það?

Af hverju vill hv. þingmaður enn þá fá tíma til þess að dreifa verðmætum fólksins í landinu fyrir slikk á þá sem fyrir eru í greininni? Hvað er það? Hvaða hagsmuni er hv. þingmaður að verja þegar hann mælir fyrir því?

Við sem flytjum þetta frumvarp erum ekki að tala um að skera upp allt kerfið. Þess vegna erum við ekki að leggja til leið Færeyinga heldur. Við erum aðeins að tala um að hætta að gefa frá okkur viðbótarkvóta fyrir slikk. Og standa vörð um hagsmuni almennings en ekki útgerðarinnar í landinu hvað þessi tonn varðar.