148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

stjórn fiskveiða.

6. mál
[17:04]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki alveg viss um hvort ég hafi fengið það svar sem mig langaði í. En gott og vel. Litlar og meðalstórar útgerðir lentu í bobba þegar þetta var sett á 2012, minnir mig. Þá kom í ljós að margar af þessum útgerðum voru að sigla í vandræði, í gjaldþrot jafnvel. Þá var settur á þessi plástur, sem hét afsláttur af lánum, vaxtaafsláttur, og eins einhvers konar þrepaskipting sem þó er mjög lítil. Það er því sannarlega mikill munur á því að gera út trillu með fá tonn eða togara með nokkur þúsund tonn, ég er alveg sammála því. Samt sem áður er ég þeirrar skoðunar að það sé pláss fyrir allar þessar stærðir af útgerðum inni í þessu kerfi sem nú er við lýði. Þó að það sé ekki fullkomið kerfi, langt frá því.

En mig langar að spyrja þingmanninn sömu spurningar og ég spurði þingmanninn sem flutti frumvarpið, af því við erum sammála um að auðlindagjaldið sé greiðsla fyrir aðgang að auðlindinni. Ég þekki engan í útgerð sem vill ekki borga auðlindagjald. En ættum við þá ekki að fara í þá vinnu að greina hvað er auðlind og hvað er ekki auðlind? Að viðkomandi aðilar, sem starfa við þær greinar sem nýta auðlindir, greiði arð eða greiði auðlindagjald af þeim auðlindum?