148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

stjórn fiskveiða.

6. mál
[17:06]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Að sjálfsögðu á að greiða auðlindagjald fyrir aðgang eða nýtingu á auðlindum þjóðarinnar, náttúru Íslands. Ef við ætlum að fara í það að greina og skoða og gera allt vil ég benda á skýrslu frá árinu 2000 um auðlindagjöld þar sem dregið er fram að leggja þurfi auðlindagjöld á íslenskan sjávarútveg en einnig eigi að leggja auðlindagjöld á nýtingu annarra náttúruauðlinda.

Það sem hefur hins vegar gerst á þessum 20 árum er að við höfum ekki náð sáttinni sem er okkur svo mikilvæg. Ég er hrædd um að þessi magnaða grein sem sjávarútvegurinn er muni á endanum líða fyrir óþol almennings, ef við komumst ekki að sanngjarnri niðurstöðu fyrir greinina sem og almenning.

Ef ég skildi hv. þingmann rétt þá ræddi hann aðeins afsláttinn sem var í fimm ár vegna skuldsetningar fyrirtækja í sjávarútvegi til kvótakaupa. Það er rétt að draga það fram að það voru ekki nándar nærri öll fyrirtæki í sjávarútvegi sem tóku sér lán til kvótakaupa. Það urðu mikil mótmæli af hálfu þingmanna Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins á síðasta kjörtímabili, sem var mjög stutt, sem komu því til mín að það yrði að framlengja þennan afslátt. Það var mikill þrýstingur í þá veru. Ég taldi að við ættum ekki að fara þá leið að framlengja afsláttinn af því að í ljós kom að mörg mjög stór útgerðarfyrirtæki fengu þennan afslátt, það voru ekki bara þessi litlu fyrirtæki sem við vorum með í huga. Þetta er angi af því að það verður alltaf, eins og góður maður hefur sagt, pínulítið skítabix í kringum þetta þegar við erum ekki komin að niðurstöðu um sanngjarnt gjald fyrir auðlindina, gjald sem er gegnsætt og allir skilja. Allir vita að það þarf að vera þannig að sjávarútvegurinn geti haldið áfram að pluma sig en þjóðin að verða ánægðari í heildina litið.