148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

almenn hegningarlög.

37. mál
[17:08]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940. Frumvarpið fjallar í stuttu máli um að banna svokallað stafrænt kynferðisofbeldi. Ég ætla að byrja á að lesa efni frumvarpsins, með leyfi forseta.

„Á eftir 210. gr. b laganna kemur ný grein, 210. gr. c, svohljóðandi:

Hver sem af ásetningi dreifir mynd- eða hljóðefni sem sýnir nekt eða kynferðislega hegðun einstaklings án samþykkis hans skal sæta fangelsi allt að 6 árum.

Sé brot framið af stórkostlegu gáleysi varðar það sektum eða fangelsi allt að 3 árum.“

Með frumvarpi þessu er lagt bann við beitingu stafræns kynferðisofbeldis og refsing lögð við þeirri hegðan að dreifa mynd- eða hljóðefni sem sýnir nekt eða kynferðislega hegðun einstaklings án samþykkis hans að viðurlögðu sex ára fangelsi.

Með tækniframförum síðastliðinna ára og áratuga hefur það fæst verulega í aukana að mynd- og hljóðefni sem inniheldur nekt eða kynlífsathafnir einstaklinga sé dreift á internetinu, án þess að efnið hafi nokkurn tíma verið ætlað til dreifingar, án leyfis þeirra sem koma fram í efninu og jafnvel án þeirra vitundar. Slíkt efni hefur stundum verið kallað „hefndarklám“ eða „hrelliklám“. Sú orðanotkun verður þó ekki talin lýsandi fyrir þann verknað sem henni er ætlað að lýsa, m.a. vegna þess að verknaðurinn felur ekki endilega í sér þann tilgang að hefna eða hrella, sem og að hugmyndir fólks um hvað teljist til kláms eru æðimisjafnar. Því er hér fjallað um verknaðinn sem stafrænt kynferðisofbeldi.

Þau brot sem féllu undir þessa refsiheimild hljóta nú meðferð samkvæmt öðrum ákvæðum almennra hegningarlaga. Dæmi er um að Hæstiréttur hafi kveðið upp dóma í málum sem samkvæmt frumvarpi þessu yrðu skilgreind sem mál sem varða stafrænt kynferðisofbeldi. Þar má m.a. nefna dóma Hæstaréttar í málum nr. 242/2007 og nr. 312/2015, en í málunum voru ákærðu sakfelldir fyrir brot gegn 209. gr. almennra hegningarlaga. Sú grein fjallar um brot gegn blygðunarsemi viðkomandi. Í síðara málinu var einnig ákært fyrir brot gegn 233. gr. b, en greinin fjallar um móðgun eða smánun á hendur maka, fyrrverandi maka eða öðrum nákomnum. Ljóst er að sú grein getur komið til álita í þeim lagaramma sem nú gildir um slík mál, þó að ekki hafi verið dæmt eftir henni í þessum umrædda dómi. Séu þau tengsl á milli aðila ekki til staðar er möguleiki á því að 234. gr. almennra hegningarlaga yrði beitt, en hún fjallar um ærumeiðingar. Við beitingu 234. gr. er almenna reglan að höfða þurfi einkarefsimál.

Hvað varðar þessar refsiheimildir verður að líta til þess að engin þeirra er sett með það í huga að sporna gegn beitingu stafræns kynferðisofbeldis. Engin þessara greina kveður beint á um refsingu vegna stafræns kynferðisofbeldis og felur því beiting þeirra í sér að ekki er refsað fyrir hið raunverulega ofbeldisverk, heldur fyrir tengdan verknað. Þessi beiting á greinum sem hafa upprunalega annan tilgang leiðir til þess að refsiheimildir verða óskýrari og óskilvirkari. Sérstaklega má benda á að samkvæmt 209. gr., þeirri grein sem dæmt var eftir í áðurnefndum dómum Hæstaréttar, er refsiverða hegðunin að særa blygðunarsemi manna með lostugu athæfi eða að verða til opinbers hneykslis. Bersýnilega er þetta orðalag úrelt og afar óheppilegt sem gildandi refsiheimild fyrir beitingu stafræns kynferðisofbeldis. Þá fjallar 233. gr. b, sem áður hefur verið ákært eftir, um móðgun eða smánun nákomins einstaklings. Þó að sú háttsemi geti vissulega falist í beitingu stafræns kynferðisofbeldis er það ekki sú háttsemi sem ætti að bera þyngstu viðurlögin heldur ofbeldið sjálft. Það sama á við um 234. gr. hegningarlaga sem fjallar um ærumeiðingar.

Nauðsynlegt er að alvarleg brot á borð við stafrænt kynferðisofbeldi hljóti eigin refsiákvæði með möguleika á beitingu þyngri viðurlaga en er að finna við klám-, blygðunarsemis- og ærumeiðingabrotum. Í núgildandi hegningarlögum er ekki að finna bein viðurlög við beitingu stafræns kynferðisofbeldis þrátt fyrir það sem hér á undan er talið.

Lagt er til að ný grein bætist við almenn hegningarlög, gr. 19/1940, 210. gr. c, sem geri refsivert það athæfi að dreifa mynd- eða hljóðefni sem sýnir nekt eða kynferðislega hegðun einstaklinga án samþykkis þeirra. Með breytingu þessari verður sú háttsemi gerð refsiverð að dreifa slíku efni, en með dreifingu er átt við að einstaklingur grípi til aðgerða sem stuðli að því að aðrir geti fengið aðgang að, séð eða fengið afrit af efninu. Samkvæmt greininni verður það skilyrði fyrir birtingu slíks efnis að fyrir dreifingunni liggi samþykki. Þannig verður refsivert að dreifa slíku efni af ásetningi ef samþykki þeirra einstaklinga sem koma fyrir í efninu liggur ekki fyrir. Með samþykki er átt við skýrt samþykki sem einstaklingur gefur til kynna með virkum hætti. Með mynd- eða hljóðefni er átt við hvers konar ljósmyndir, myndbönd, upptökur, eða hvers konar margmiðlunarefni sem kann að vera möguleiki á að framleiða.

Lagt er til að hámarksrefsing vegna slíkra brota verði sex ár þegar um er að ræða ásetning. Ljóst er að stafrænt kynferðisofbeldi hefur alvarlegar afleiðingar og með beitingu þess er vegið með mjög alvarlegum hætti að persónu og frelsi þolandans.

Þó kann að vera að fólk hafi í sínum fórum efni sem sýnir nekt eða kynferðislega hegðun annarra með samþykki fyrir þeirri vörslu án þess að efnið sé ætlað til dreifingar. Mikilvægt er að ábyrgð þess sem hefur efnið í sínum fórum, jafnvel með samþykki þeirra sem fram í því koma, á því að vernda efnið gegn dreifingu sé ótvíræð og er því lagt til að refsing við dreifingu þess af stórkostlegu gáleysi varði sektum eða fangelsi allt að þremur árum.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið stuttri yfirferð á greinargerðinni, helstu atriðum úr henni sem ég vildi að kæmu fram, en ég hvet áhugasama vitaskuld til að lesa hana í heild sinni. Þetta mál er til komið vegna þess að núna höfum við gengið í gegnum miklar tækniframfarir. Þeim fylgja bæði gríðarlega mikil tækifæri og gríðarlega miklar ógnir. Ef tæknin er rangt notuð getur hún bitnað mjög alvarlega á frelsi fólks og lýðræðislegum réttindum. Höfum við Píratar haldið margar ræður um það og erum reyndar til af þessari ástæðu ef út í það er farið.

Eitt af því sem er mjög mikilvægt fyrir alla löggjöf sem á að taka á svona brotum er að hún sé skýr. Það er ekki nóg að hún sé skýr fyrir dómstóla. Jafnvel þótt 209. gr. almennra hegningarlaga um blygðunarsemisbrot hafi verið notuð og geti verið notuð er það ekki nóg því að þetta felur ekki endilega í sér einhverjar spurningar um blygðun eða blygðunarsemi. Þetta snýst um friðhelgi einkalífs og kynfrelsi einstaklinga, rétt þeirra til að ákveða sjálfir hvernig þeir haga sínum málum. Og kynfrelsi hlýtur að vera eitt af djúpstæðustu réttindum sem við eigum eða svo myndi maður halda.

Það er líka mjög mikilvægt að löggjöf sé framfylgjanleg. Það er ekki nóg að Alþingi gefi út einhver skilaboð um það að Alþingi finnist það vera slæmt framferði að beita stafrænu kynferðislegu ofbeldi. Það er ekki nóg. Þess vegna er m.a. refsiramminn svo hár sem hér er nefndur og sömuleiðis er útfærslan hugsuð sérstaklega þannig að hægt sé að taka á þessum málum. Það hafa komið fram tillögur sem miðast meira að því að gefa einhver skilaboð eða koma þessu einhvern veginn fyrir í almennum hegningarlögum en þá hef ég haft áhyggjur af að þau séu ekki framfylgjanleg, það sé ekki hægt að framfylgja þeim með raunhæfum hætti. Það er eitt að framfylgja hlutum sem gerast á internetinu en að framfylgja þeim sem gerast úti í búð eða úti á götu. Það er eðlismunur á þessum fyrirbærum og þess vegna þurfum við að nálgast viðfangsefnið öðruvísi en við gerum ef það gerist úti í búð eða úti á götu. Þetta frumvarp er skrifað með tillit til þess og tel ég það framfylgjanlegt. Ég tel ábyrgðina skýra, refsirammann nógu háan til að lýsa alvarleika brotsins og sömuleiðis að lögreglan hafi þær rannsóknarheimildir sem hún þarf til að rannsaka þessi mál af þeim þunga sem er við hæfi.

Það er enn fremur ákveðin eðlismunur að mínu mati á þessu broti og ærumeiðingabrotum. Þetta brot snýst um friðhelgi einkalífs og kynfrelsi einstaklinga, snýst að mínu mati alla vega ekki svo mikið um æru fólks þótt hún komi vissulega líka við sögu. En síðast en ekki síst er mjög mikilvægt að við höfum alveg á hreinu, löggjafinn og samfélagið, hvar ábyrgðin liggur í þessum málum. Sá sem verður fyrir stafrænu kynferðisofbeldi ber enga ábyrgð á því sjálfur. Ekki neina. Það er alfarið gerandinn, alfarið sá sem dreifir, sem ber ábyrgðina og ekki á neinn hátt hægt að sakast við fórnarlömb stafræns kynferðisofbeldis. Við eigum aldrei að segja við þau að þau hefðu ekki átt að láta taka mynd af sér, hefðu ekki átt að hýsa þetta hér eða þar. Það er hægt að gefa einhverjar almennar öryggisráðleggingar eins og við gerum í okkar daglega lífi almennt. En ábyrgðin liggur alltaf hjá gerandanum. Skömmin liggur aldrei hjá þeim sem er í svona efni og verður fyrir stafrænu kynferðisofbeldi. Ef það væru aðeins ein skilaboð sem við þyrftum að koma á framfæri héðan væru það þau skilaboð. Ég vona að fólki sem verður fyrir stafrænu kynferðisofbeldi, þótt ég viti að því hljóti að fylgja skömm af félagslegum ástæðum, takist að líta svo á að það á ekki að skammast sín. Gerandinn á að skammast sín. Það er gerandinn sem er sekur og gerandinn sem við eigum að eltast við. Það er lagt til með þessu frumvarpi að svo verði sem fyrr greinir með slíkum refsiramma að lögreglan ætti að hafa raunverulegar heimildir til að rannsaka þessi mál, ekki bara með því að slá á puttann heldur til að fara með þau sem mjög alvarleg kynferðisafbrot sem og þau vissulega eru.