148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

almenn hegningarlög.

37. mál
[17:20]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna og fyrir að umræða fari fram um þetta alvarlega en mikilvæga málefni. Þótt við þingmenn Sjálfstæðisflokksins séum ekki meðflutningsmenn frumvarpsins er ekki þar með sagt að við séum á móti því eða markmiði þess. Það sem vakir fyrir okkur er hvort við séum raunverulega að leysa vandamál eða búa það til. Hversu ítarlega hefur verið farið yfir að þetta sé rétta leiðin? Og hvert er vandamálið? Í greinargerð með frumvarpinu er vitnað í dóm Hæstaréttar nr. 312/2015 þar sem er dæmt er fyrir akkúrat svona brot. Þetta frumvarp er þó vissulega betra en frumvörp sem hafa áður verið lögð fram undir nafninu hefndarklám, því að þar var refsiramminn aðeins eitt til tvö ár. Hann hefur verið hækkaður núna. Ef það frumvarp hefði náð fram að ganga á sínum tíma hefðum við hugsanlega verið að minnka refsirammann. Það er þó búið að bæta úr því hér. En við höfum nú þegar dómafordæmi Hæstaréttar fyrir þessu, dæmt hefur verið fyrir þau brot sem fjallað er um í frumvarpinu. Við höfum réttarvissu fyrir því. Þótt brotaþoli hafi sent myndina sjálfur var dæmt fyrir misnotkun. Þess vegna er ég að leita að því hvert raunverulega vandamálið er sem frumvarpið á að leysa.