148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

almenn hegningarlög.

37. mál
[17:24]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Almenn hegningarlög eru vissulega orðin ansi gömul, það er langt síðan þau voru sett. En hugmyndin með þeim er að þau standist þróun tímans og ég held að fyrrnefndur hæstaréttardómur sanni að þau hafi gert það. Nú höfum við fordæmi fyrir því að þau nái utan um stafræna væðingu hvað þetta varðar. Talandi um að réttarkerfið viti ekki hvernig á að takast á við málin hefur Hæstiréttur sagt það, kominn er dómur um hvernig þetta er. Það er hluti af því að skýra réttarstöðuna. Ef við gerum svona breytingu verðum við að passa okkur á því að þrengja ekki réttarstöðuna frá því sem hún er í dag. Hafa flutningsmenn frumvarpsins fengið yfirferð sérfræðinga, eins og réttarfarsnefndar, eða réttarkerfisins sjálfs um að við séum alveg örugglega ekki að þrengja réttarstöðu brotaþola frá því sem hún er í dag og við höfum fengið staðfest hjá Hæstarétti? Það finnst mér gríðarlega mikilvægt. Hefur verið gengið úr skugga um hvað það er sem hefur raunverulega gert brotaþolum erfitt að ná málum sínum fram? Er það eitthvað varðandi sönnunarfærsluna? Er eitthvað í réttarfarslögunum sem við þurfum að breyta? Er það að ekki sé nútímaorðalag í lögunum eina vandamálið og það sem hefur torveldað brotaþolum að ná fram rétti sínum?