148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

almenn hegningarlög.

37. mál
[17:28]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að þakka flutningsmanni, hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni, fyrir þetta mál. Ég held að mjög brýnt sé að á þessu sé tekið. Þetta er augljóslega vaxandi vandamál í samfélagi okkar í dag. Þó svo að, eins og hér er bent á í umræðunni, dómstólar hafi verið að reyna að ná utan um þessi brot með vísan til annarra greina í hegningarlögum þá held ég að enginn vafi leiki á mikilvægi þess að löggjafinn taki á málinu með skýrum hætti og marki líka skýran refsiramma um brot af þessu tagi. Raunar veldur nokkrum vonbrigðum hvað við höfum verið lengi að bregðast við í slíkum málum.

Það sem ég velti kannski fyrir mér í þessu er að — jú, mér finnst ánægjulegt að sjá að heldur er hert á refsirammanum miðað við þau dómafordæmi sem við höfum í dag þegar vísað er til 209. gr. hegningarlaga varðandi blygðunarbrot. Nú heyrum við um þær miklu og skelfilegu sögur sem ganga undir myllumerkinu #metoo eða #églíka og fjölmörg dæmi þess að verið sé að senda einstaklingum myndefni með mjög klámfengnum hætti þar sem brotið er klárlega gegn viðkomandi einstaklingum. En þau mál, þegar þeim hefur verið vísað til lögreglu, virðast sjaldan leiða til ákæru, hvað þá dóms. Það væri áhugavert að heyra frá hv. flutningsmanni hvort hv. þingmaður hafi eitthvað hugleitt hvort slík brot, þ.e. sendingar á slíku klámfengnu efni til einstaklinga sem vilja ekki taka á móti slíkum sjálfsmyndum, ef orða mætti svo, mætti með (Forseti hringir.) einhverjum hætti fella undir ákvæði sem þetta.