148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

almenn hegningarlög.

37. mál
[17:33]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Kannski var ég bara ekki nægilega skýr í spurningunni. Ég er alveg sammála hv. þingmanni í að auðvitað liggur í þessum málum ábyrgð þess sem geymir myndefnið eða efni af þessu tagi með einhverjum hætti og mjög skýrt á því tekið þarna að hvort tveggja geti talist brotlegt; stórkostlegt gáleysi eða hreinn ásetningur. En það sem ég átti við og vísaði til í spurningu minni er þar sem af hreinum ásetningu er verið að senda klámfengið efni í einhvers konar hrelliskyni, ekki af móttakanda endilega heldur beinlínis til þess að áreita viðkomandi einstakling, verulega í óþökk þess sama einstaklings. Við sjáum fjölmörg dæmi um það í umræðunni í dag þar sem verið er að senda myndir jafnvel á barnunga einstaklinga sem eru mjög klámfengnar eða meiðandi. Hefur hv. þingmaður leitt hugann að því hvort refsiákvæði sem þessi gætu náð utan um slík brot einnig eða ekki?