148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

almenn hegningarlög.

37. mál
[17:34]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að skýra spurninguna. Ég skil hana betur núna.

Ég held ekki að orðið typpi sé fúkyrði, ég ætla að leyfa mér að segja það. Hv. þingmaður er að tala um það sem í daglegu tali er sagt þegar menn senda typpamyndir af sér, yfirleitt til kvenna sem vilja ekkert með slíkar myndir hafa. Það getur vissulega verið hluti af áreitni. Ég hef ekki litið þannig á að þessi klausa myndi ná utan um slík brot. Slík brot myndu frekar falla undir 209. gr., sem er nú þegar í lögum, sem blygðunarbrot. Þar er fjögurra ára fangelsisrammi. Ég hef ekkert íhugað það að neinu ráði hvort sá refsirammi sé hæfilegur, fjögur ár. En í fljótu bragði virðist mér svo vera. Ég sé ekki ástæðu til að fara í sex ára fangelsisramma með tilheyrandi rannsóknarheimildum lögreglu vegna slíkra brota, þótt vissulega sé slík hegðun óvelkomin, við gerum ráð fyrir að hún sé óvelkomin ef þetta á að heita brot. Í því felist sambærileg hegðun og finnst í áreitni almennt. Það er ýmis svona hegðun sem við köllum brot eða ekki brot eftir því hvort hún er velkomin eða ekki. Þá hlýtur það að vera mælikvarðinn á það.

Mér sýnist í fljótu bragði 209. gr. duga. Ég veit ekki tilfelli þess að það hafi verið eitthvað sérstaklega erfitt að rannsaka þau mál út frá þeim lagabókstaf, ég þekki það hreinlega ekki. Það getur vel verið að svo sé. En þá myndi ég halda að það væri þá frekar liður í að reyna að finna almenna lagalega útfærslu á því hvað kallist áreitni og hvernig eigi að bregðast við henni. En eins og ég segi var það ekki hugsunin með þessu frumvarpi og ég sé ekki hvernig það myndi falla undir þetta frumvarp. En góð spurning og (Forseti hringir.) alveg þess virði að ræða hana frekar í nefnd.