148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

almenn hegningarlög.

37. mál
[17:54]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Virðulegi forseti. Ég þakka framsögumanni og öllum meðflutningsmönnum fyrir að þetta frumvarp er komið fram. Ég fagna því mjög og finnst í sjálfu sér táknrænt að það skuli koma fram einmitt í dag.

Ég er ekki einn af flutningsmönnum frumvarpsins og má líta á það sem mistök af minni hálfu vegna þess að hafi mér verið boðið að vera með hef ég ekki tekið eftir því. Ég hefði gjarnan viljað vera meðflutningsmaður á þessu frumvarpi.

Alnetið er stórkostleg tækniframför. En það hefur skuggahliðar, dökkar hliðar sem birtast okkur æ meir eftir því sem þróun þess og útbreiðsla verður meiri, þar á meðal stafrænt kynferðisofbeldi. Það virðist vera út frá mörgum frásögnum brotaþola sem maður hefur heyrt og séð að oft og tíðum fylgi dreifing þessa efnis sambúðarslitum eða einhverju slíku og það sé notað af hreinum hefndarþorsta. Í sjálfu sér er hefndarklám eða hrelliklám og klám á netinu jafn alvarlegt og hefur jafn alvarlegar fyrir brotaþola og annað kynferðislegt ofbeldi.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að færa eigi kastljósið af þolendum yfir á gerendur. Við vitum það örugglega mörg að þolendur kynferðisofbeldis hafa sagt sögur af því hversu erfitt það er að koma fram og kæra, hversu erfitt það er t.d. að málshraðinn hér er allt of langur. Þolendur eru dregnir í gegnum alls konar umræðu. Framkoma þeirra er tortryggð, jafnvel klæðnaður og hvar þær voru.

Þess vegna er það fagnaðarefni að þetta frumvarp skuli koma hér fram. Þegar löggjöf er ekki ótvíræð og ekki nógu skýr og verndar ekki brotaþola nægilega verðum við að sjá til þess að hún sé skýrð þannig að vafinn sé enginn eða sem minnstur. Þess vegna fagna ég því mjög að þetta skuli vera komið fram hér nú.

Það hefur líka komið fram hjá þolendum að sögurnar eru átakanlegar. Þær bera með sér að afleiðingar hrellikláms eru síst minni og eiginlega erfiðari eða jafn erfiðar og afleiðingar af öðru kynferðisofbeldi.

Það er annað mál og efni í sérstaka umræðu að til þess að hægt sé að framfylgja lagabreytingu eins og þessari verðum við að gera lögreglunni kleift að framfylgja þessum lögum með því að tryggja henni nauðsynleg tæki, þekkingu og mannafla. Það er efni í sérstaka umræðu. Því miður hafa framlög til lögreglunnar dregist verulega saman undanfarin ár. Það má segja að allar deildir og greinar lögreglunnar séu bæði vanbúnar jafnt mannskap, tækjum og fjármunum, hvort sem á við um umferðarlagabrot, kynferðisbrot, auðgunarbrot, það skiptir ekki máli. Alls staðar er lögreglan að verða vanbúnari en áður. Ég átti tal við lögreglumann um daginn sem sagði mér hversu mikið hefði fækkað á vakt í Reykjavík um helgar. Það er alveg skelfileg þróun að vaktirnar eru orðnar mun fámennari en áður var. Vegna þess að lögreglan er vanbúin lenda lögreglumenn oft í átökum við brotamenn sem þeir gætu komist hjá ef þeir væru almennilega búnir.

Eins er með brot af þessu tagi hér sem krefjast tæknibúnaðar, mikillar þekkingar. Við þurfum að vera við því búin, og það þarf í sjálfu sér að fylgja í kjölfar lagasetningar eins og þessarar, að lögreglunni sé tryggt nægt fjármagn og mannafli til þess að geta framfylgt þessu góða máli.

Mig langar aðeins að fara yfir eitt hér þótt það sé kannski önnur grein af kynferðisofbeldi, en mér finnst það svo sláandi og svo vill til að ég man nokkurn veginn tölurnar frá Bretlandi í því efni og ef eitthvað er eru þær hlutfallslega verri hér. Í Bretlandi er 60 þúsund konum nauðgað á hverju ári, um það bil. Það eru um það bil 18 þúsund mál sem eru kærð af þessum 60 þúsundum. 2.900 mál sem rata inn í dómsali. Af þessum 2.900 málum eru 1.100 sakfellingar. 1.100 sakfellingar af 60 þúsund málum.

Ég man ekki tölurnar frá Íslandi, en síðast þegar ég aðgætti stóðum við okkur hlutfallslega verr en Bretar. Það er ólíðandi, svo gersamlega ólíðandi, herra forseti. Það sýnir vanvirðingu okkar í garð þeirra sem eru fórnarlömb kynferðisofbeldis. Þess vegna er þetta mál mjög gott innlegg í að reyna að vernda þessi fórnarlömb eins og við best getum og færa fókusinn og ábyrgðina á gerendur þar sem hún á heima. Ég tók eftir að hv. framsögumaður sagði áðan að ábyrgð gerenda í þessum málum væri alveg ótvíræð. Það er alveg rétt hjá honum. En það er reyndar líka þannig að ábyrgð gerenda er alltaf ótvíræð þegar um kynferðisbrot er að ræða. Það er engin afsökun sem gerendur hafa fyrir einhverjum aðstæðum þar sem brotið á sér stað. Alls ekki. Það er því mjög þarft og gott að þetta mál skuli koma fram og ég vona að það eigi greiða leið í gegnum allsherjar- og menntamálanefnd sem ég vænti að taki það til athugunar. Ég vona að málið fari greiðlega þar í gegn og heiti stuðningi við það alla leið.