148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

64. mál
[18:33]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar hv. þingmaður fór að tala um tolla áttaði ég mig á því hvað ræðan í upphafi minnti mig á. Hún minnti mig á — ég ætla ekki að segja það. Ég fer frekar yfir ræðu mína. Þetta er eins og að Félag atvinnurekenda sé allt í einu komið inn á þing, einhver harðasti sérhagsmunahópur á Íslandi.

Ég spurði hv. þingmann út í það og hún svaraði því réttilega að mjólkuriðnaður væri ekki undanþeginn almennum samkeppnislögum. Það er ein ákveðin undanþága sem löggjafinn ákvað 2004 — löggjafinn, við hér, þetta hús — þ.e. að mjólkuriðnaðurinn skyldi undanþeginn ákveðnum hluta samkeppnislaga. Ber þá ekki Samkeppniseftirlitinu að fara að þeim lögum? Verður ekki að gera það í staðinn fyrir að pönkast og pönkast á þeim iðnaði endalaust?

Við hv. þingmaður getum verið sammála um eitt þó að við höfum ólíkar leiðir að því; almenningur og neytendur eiga að njóta góðrar og heilnæmrar íslenskrar (Forseti hringir.) vöru. En það gerum við ekki með því að samþykkja það frumvarp sem þingmaðurinn leggur fram og mun ég fara yfir það síðar í dag.