148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

64. mál
[18:34]
Horfa

Flm. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ja, hver er það sem pönkast og pönkast á íslenskum neytendum? Það er óeðlilegt árið 2018 að menn byggi starfsemi sína á sérreglum frá samkeppnislögum. Ég margsagði það áðan að það voru ákveðnar ástæður fyrir því að þessi leið var farin árið 2004. Hún var umdeild þá alveg eins og núna. Að segja að þetta sé bara eitthvert píp í Félagi atvinnurekenda er dæmigerður málflutningur þeirra sem vilja aldrei breyta einu eða neinu. Þetta er gamall málflutningur, bara í aðeins nýjum búningi. Þetta er málflutningur þeirra sem vilja gæta sérhagsmuna framar almannahagsmunum. Ég er sannfærð um að ef íslenskur landbúnaður starfar eftir almennum lögum, öllum almennum lögum, því að hvert ákvæði skiptir máli — 71. gr. er ein mikilvægasta greinin varðandi samkeppnislögin — eykst enn frekar traust og stuðningur við íslenskan landbúnað. Er þó stuðningur við landbúnaðinn mjög (Forseti hringir.) mikill fyrir í íslensku samfélagi. Við viljum ekki breyta því, við viljum frekar auka hann. Það gerum við með því að láta allar atvinnugreinar starfa eftir almennum samkeppnislögum. Sérreglur eru gamaldags.