148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

64. mál
[18:36]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er mjög áhugavert og ágætt frumvarp enda er ég einn þeirra sem líta svo á að frjáls viðskipti séu af hinu góða. Jafnvel þótt ég væri ekki almennt hlynntur markmiðinu verður að segjast að þetta er með þeim betur útbúnu þingmannamálum sem ég hef séð, bæði í útfærslu og greinargerð. Það er mjög gaman að þetta sé komið fram. Þakka ég fyrir það.

Það eru samt nokkrar spurningar sem vefjast fyrir mér. Sú fyrsta er varðandi þá fullyrðingu hv. þingmanns að lagabreytingin muni leiða af sér betra verð til neytenda. Ég er alveg tilbúinn til að trúa því en mig vantar svolítið gögnin. Hefur farið fram einhvers konar greining á því hvaða áhrif þetta gæti haft? Það er nefnilega töluvert mikið af greiningum á ýmsu öðru í frumvarpinu, ekki síst fjárhagslegum áhrifum á stöðu ríkissjóðs og þess háttar. En mér finnst vanta að fá raunverulegri tölur eða greiningu á hverjir raunverulegir almannahagsmunir eru.

Síðan finnst mér nokkuð ljóst að þetta er á vissan hátt einhvers konar viðbragð við samkeppnisbroti Mjólkursamsölunnar, MS, á sínum tíma um árið þar sem gert var upp á milli framleiðenda. En það er spurning hvort til sé einhver greining líka á því hver nákvæmlega áhrifin yrðu gagnvart minni framleiðendum. Mér finnst leiða af almennri hugmynd um frjáls viðskipti að það að bjóða ekki upp á svona einokunaraðstöðu muni aðstoða, en það er spurning hvort frumvarpið komi beinlínis að (Forseti hringir.) þeim fyrirtækjum eða tengist beint hagsmunum þeirra fyrirtækja sem eru smærri á þessum markaði.