148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

64. mál
[18:38]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Herra forseti. Já, minni framleiðendur. Það er rétt að draga fram að ekki er verið að breyta söfnunarhlutanum. Það fyrirkomulag sem er núna í gegnum Auðhumlu sem hefur það hlutverk að safna mjólk og borga fyrir það, sama hversu langt og erfitt er að sækja hana, það verður áfram, að tryggja söfnunarhlutann. Við erum ekki að breyta því.

En í tengslum við Auðhumlu þarf verðtilfærslan, verðmyndunin, að vera mjög gegnsæ og byggð á skýrum gögnum. Það á vonandi að vera eitt af hlutverkum verðlagsnefndar búvara að fara nákvæmlega í það hvernig söfnunarhlutverkinu er sinnt. Ég er sannfærð um að í gegnum þá leið er verið að tryggja minni framleiðendum líka aðgang að hrávöru og efni til að fara í framleiðslu. Það skiptir miklu máli og við sjáum það bara alls staðar þar sem við höfum aukið samkeppni á íslenskum markaði. Er eitthvert svið þar sem við sjáum að samkeppni hafi ekki verið til góðs fyrir neytendur? Á ég að nefna Costco? [Hlátur í þingsal.] Mér skilst að Costco sé að detta úr tísku en það er kannski allt í lagi að nefna samt Costco hérna. Á eldsneytismarkaði. Við sjáum alveg aðhaldið sem kemur. Aðilar fyrir á markaði fara að bjóða fram meiri þjónustu eða öðruvísi, setja fram nýjar vörur. Allt er það til hagsbóta fyrir neytendur. En ég leyni því ekki og dreg fram í frumvarpinu að það getur vel verið að sumar vörur hækki, hugsanlegt er að smjör hækki, en aðrir hlutir, tilteknir ostar o.s.frv., lækki. Það er það sem við erum líka að draga fram, að við verðum hér með eðlilega verðmyndun, að það verði ekki bara einhver nefnd úti í bæ sem ákveði hvaða búvörur eigi að niðurgreiða og hverjar ekki. Allt þetta styrkir heilbrigt umhverfi. Ég er sannfærð um að heilbrigt umhverfi er til hagsbóta fyrir framleiðendur sem og neytendur.