148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

64. mál
[18:40]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hv. þingmanni, auðvitað mun meiri samkeppni leiða af sér betri niðurstöðu enda snerist spurningin fyrst og fremst um hvort til væri greining á því hversu miklu betri niðurstöðu hún leiddi af sér, en það er kannski annað mál.

Talað er um ákvörðun Alþjóðaviðskiptamálastofnunarinnar frá því 2015 í greinargerð frumvarpsins. Það er alltaf sama samtalið sem kemur upp varðandi fríverslun og landbúnað, það eru bara ansi mörg lönd í heiminum sem eru mjög viðkvæm fyrir því að landbúnaður sé opinn. Alþekkt er að Nýja-Sjáland hefur fellt niður alla tolla og flesta styrki. Ég veit að það er enginn að leggja það til hér, þ.e. varðandi styrkina, en það er spurning hvort þetta verði að mati hv. þingmanns til þess að styrkja samkeppnishæfni íslensks landbúnaðar í heild sinni út á við, til annarra landa. Hv. þingmaður minntist á Siggi's skyr og fleira. Getur þetta gert það að verkum að við stöndum okkur betur?