148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

64. mál
[18:42]
Horfa

Flm. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Herra forseti. Já, ekki spurning. Við stöndum okkur vel. Bara á síðustu fimm árum höfum við séð frábærar breytingar á þróun í íslenskum landbúnaði varðandi vörur, þjónustu og fleira. Við getum stigið enn þá fleiri skref undir þeirri heilbrigðisregnhlíf sem opin og frjáls samkeppni er. Ég er sannfærð um að það muni hjálpa okkur. Almennar og gegnsæjar reglur virka hvetjandi á þá sprota og nýja hugsun sem við þurfum svo á að halda. Ný fyrirtæki eru sett á fót, þau fara kannski á hausinn en það er eitthvað sem lifir. Síðan eru önnur sem halda áfram að dafna og nýta sér þekkingu og þróun, rannsóknir o.s.frv. Það verður til þess að styrkja íslenskan landbúnað til lengri tíma. Við erum að gera það. Við sjáum það í ákveðnum mæli núna í útflutningi til Evrópu og Bandaríkjanna. Ef við trúum á það sjáum við þessa sprota, þá nýsköpun sem mun á endanum gefa af sér sterkari landbúnað. Við erum með frábæra vöru, ekki síst nú í kröfuhörðum heimi, heilnæma vöru í heilnæmu umhverfi.