148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

64. mál
[18:43]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og þessa umræðu. Ég tel að öll umræða um íslenskan landbúnað sé af því góða, það er jafn lífrænt og íslenskur landbúnaður er að mínu áliti. Ég er ekki að segja að ég styðji allt það sem fram hefur komið og hef nokkrar athugasemdir við það.

Það er eitt sem ég ætlaði að vekja athygli á. Hv. þingmaður talar um að við veljum almenna hagsmuni umfram sérhagsmuni. Þá hef ég áhyggjur af því hvernig frummælendur sjá það fyrir sér í byggðalegu tilliti. Væri ekki freistandi að greiða hærra verð? Þarna er tillaga að breytingu, að hverri afurðastöð sé heimilt að greiða framleiðendum hærra verð á lágmarksverð, samanber 8. gr. laganna.

Þá er spurningin: Er ekki tilhneigingin sú að samkeppnin fari út í það að ýta bændum í burtu sem búa á jaðarsvæðum? Mig minnir að hv. þingmaður hafi sagt að frumvarpið væri lagt fram til að styðja við framleiðendur, en ég held að þetta sé einmitt svo hættulegt.