148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

64. mál
[18:48]
Horfa

Flm. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Herra forseti. Nú þegar á sér stað mikil hagræðing í mjólkurframleiðslu. Kúabændum hefur fækkað, búin hafa stækkað og eru orðin mun tæknivæddari en áður. Við náum mun betri framlegð í dag en fyrir bara fimm árum, hvað þá fyrir 10 árum. Greinin sjálf er í gríðarlegri þróun. Þar er ákveðin samþjöppun. Ákveðin hagræðing á sér stað af því að greinin sjálf er að reyna að uppfylla þær kröfur sem neytendur og markaðurinn gera til hennar.

Byggðasjónarmiðin eru gild sjónarmið. Við eigum að taka þau alvarlega. En ég tel líka að við eigum að þora að segja að við þurfum að tryggja söfnunina. Það ætlum við að gera áfram óháð því hversu erfitt og kostnaðarsamt er að ná í hana. Um leið þurfum við að segja að ákveðin svæði á landinu henta betur til mjólkurframleiðslu, fyrir kúabændur, en önnur. Sum svæði eru sterkari. Þar er hægt að nefna Eyjafjörðinn sem dæmi. Svo eru önnur svæði sem eru sterkari fyrir t.d. sauðfjárbændur. Það verður einhvern tímann að þora að segja: Eigum við þá ekki að styrkja betur sauðfjárbændur á ákveðnum svæðum til þess að hafa (Forseti hringir.) greinina þar? Það getur verið umhverfisvænt og það getur líka verið hagkvæmt byggðarlega séð.