148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

64. mál
[19:01]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það er alltaf gaman að hlusta á þingmanninn, líkt og aðra flutningsmenn þessarar tillögu sem eru mjög trúir þeim málstað sem þeir flytja hér í þingsal.

Það eru að sjálfsögðu nokkur atriði sem mig langar að spyrja um en ég ætla að spyrja út í eitt sem er tengt orðum hv. þingmanns um verðhækkanir. Í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands frá 2015 segir, með leyfi forseta:

„Með öðrum orðum hækkuðu mjólkurafurðir minna í verði en aðrar neysluvörur frá 2003–2013.“

Er hún röng, að mati hv. þingmanns, þessi niðurstaða Hagfræðistofnunar? Ég ætla ekki að eyða tíma í að lesa þetta allt saman, en þetta er niðurstaðan að mjólkurafurðir hafi hækkað minna í verði en aðrar neysluvörur frá 2003–2013.

Síðan langar mig að spyrja líka: Ef hv. þingmanni verður að ósk sinni og verðtilfærslurnar verða afnumdar, er hv. þingmaður til í að upplýsa okkur um það hvaða vörur það eru sem munu hækka í verði? Það er mikilvægt að við áttum okkur á því, úr því okkur er svona annt um neytendur hér, hvaða vörur það eru sem munu hækka í verði við að verðtilfærslurnar verði afnumdar. Það er alveg augljóst og það vita það allir sem eitthvað hafa kynnt sér málið að það mun gerast. Aðrar vörur munu hins vegar lækka, það er rétt, þær munu lækka. En það er mikilvægt að menn átti sig á því hvaða vörur þetta eru. Þarna má ekki bera saman epli og appelsínur eða Íseyjar-skyr og nýmjólk.