148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

64. mál
[19:03]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og segi: Það er líka mjög gaman að tala um mál sem maður hefur mikla sannfæringu fyrir. Varðandi spurningu hv. þingmanns, um skýrslu Hagfræðistofnunar, þá hygg ég að það sé alveg rétt að á þessu viðmiðunartímabili, 2003–2013, hafi mjólkurvörur hækkað minna en almennt verðlag. Ég skoðaði tímabilið ársbyrjun 2004 til ársloka 2017 og þá var alveg ljóst að mjólkurvörur höfðu hækkað talsvert meira. Það er líka alveg ljóst að frá lokum þess tímabils sem Hagfræðistofnun vísar til hefur orðið töluverð hækkun á mjólkurafurðum umfram almennt verðlag. Hluti af skýringunni á minni hækkun mjólkurafurða en margra annarra afurða á seinni hluta þessa tímabils sem þarna er getið, ef við horfum á árin 2009–2013, er auðvitað hið mikla gengisfall sem varð og gríðarleg hækkun á verðlagi innflutnings á sama tímabili. Flestar innlendar framleiðsluvörur bættu verulega samkeppnisstöðu sína gagnvart þeim innfluttu á þessu tímabili og það kann að hluta til að skekkja þetta samanburðartímabil. Svo virðist aftur draga í sundur þegar frá líður, þannig að á þessu tímabili sem ég skoðaði, 2004–2017, er alveg ljóst að mjólkurafurðir hækka talsvert meira. Mér sýndist það nú reyndar eiga nokkuð jafnt við um þær flestar, hvort sem horft var til mjólkur, osta eða smjörs, að þær væru meira og minna allar að hækka í nokkuð svipuðum takti.

Hvað varðar verðtilfærslurnar þá er það alveg rétt að þetta kann að breyta verulega verði milli einstakra afurða. Það hefur til dæmis verið ljóst að verið er að halda verði á mjólk talsvert niðri en það er bætt upp með verðlagningu annars feitmetis eins og osta. Þetta kann að breyta töluverðu þar um. En það má þá velta því fyrir sér hvort það mundi til dæmis ekki bæta samkeppnisstöðu innlendrar ostaframleiðslu gagnvart mögulegum innflutningi; það sem kannski hefur verið sótt að í vernd.