148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

64. mál
[19:05]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svarið. Jú, það er nefnilega þannig að væntanlega munu nýmjólk, rjómi, smjör og ostar hækka ef verðtilfærslurnar verða lagðar af. Allt eru það vörur sem mönnum er ráðlagt að neyta á Íslandi vegna þess að þær eru hollar; ef ég man rétt þá er eitthvað af þeim í lýðheilsupakkanum eða viðmiðunum, ég man ekki hvað þetta heitir allt saman. En alla vega vitum við að mælt er með því, af læknum og öðrum, að fólk neyti þessarar vöru. Á meðan þessar vörur hækka munu væntanlega unnar vörur, líkt og skyr sem er með sætuefnum og einhverju slíku, væntanlega lækka í verði. Þá er spurning hvort við viljum — það er vonandi ekki vilji flutningsmanna — beina neytendum yfir í eitthvað slíkt.

Ég þakka þingmanninum fyrir ábendingar varðandi þessar lækkanir á neysluvörunum. Auðvitað skiptir það alltaf máli hvaða tímabil við tökum og hvernig við setjum súluritin upp og allt það, við þekkjum það algjörlega. Það má líka velta fyrir sér, ef við tækjum árið 1990–2017, hvernig myndin liti þá út, þegar vörur hækkuðu gríðarlega mikið fram undir aldamótin, minnir mig, þannig að menn fóru hreinlega í það að taka til í þeirri atvinnugrein sem mjólkuriðnaðurinn er. Það er búið að gera rosalega margt til þess að halda verði á vörum niðri fyrir neytendur.

Gleymum því heldur ekki að kostnaður við framleiðslu á mjólk er talinn hafa hækkað um 38% á árunum 2003–2014 meðan neysluverðsvísitalan hækkaði um 88%. Þarna erum við að tala um annars vegar 38% hækkun á kostnaði sem framleiðendur urðu fyrir á meðan neysluverðsvísitalan hækkaði um 88%. Ef öllum þeim kostnaði hefði verið veitt út í verðlagið hvað hefðu mjólkurvörur eða framleiðsluvörur þá hækkað mikið? Ég hef séð tölu upp á 25%. En þess vegna tók iðnaðurinn á sig þessa hækkun.