148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

64. mál
[19:10]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Hæstv. þingforseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér er og hefur verið fróðlegt að hlusta á. Flutningsmönnum er tíðrætt um það hagræði sem af því hlýst að hafa frjálsa samkeppni o.s.frv. Það er nú einu sinni þannig þegar öllu er á botninn hvolft í þessu máli að sú umgjörð sem er í dag er bæði góð fyrir neytendur og bændur. Það hefur stundum verið þannig í umræðunni að velt er saman tveimur hópum af bændum, annars vegar kúabændum og hins vegar sauðfjárbændum. Þar er stórmunur á. Kúabúskapurinn gengur ljómandi vel, enda er umgjörðin í kringum þann búskap allt önnur en er í sauðfjárbúskap. Það skulu menn hafa í huga. Af hverju er afkoman mun betri hjá kúabændum en hjá sauðfjárbændum? Það er akkúrat það sem við erum að ræða í dag. Stóra atriðið í því er sú umgjörð sem er í kringum atvinnuveginn sjálfan, úrvinnsluna og þá 71. gr. sem mönnum er tíðrætt um í dag. Það er stóra málið.

Það sem gerist í framhaldinu ef menn fara þá leið sem flutningsmenn fylgja eftir — og það er margt fram undan í íslenskum landbúnaði. Það eru breytingar á tollum, EFTA-dómstóll, varðandi innflutning á ógerilsneyddum vörum o.s.frv. Það er stóru áskoranir landbúnaðarins. Ég held að menn ættu að hugsa sig verulega um áður en þeir fara í að taka til og breyta því rekstrarumhverfi sem gengur vel og er gott fyrir bændur og neytendur.