148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

64. mál
[19:12]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er alveg óumdeilt, og kemur að andsvari sem var veitt hér fyrr, að það hefur orðið mikil hagræðing í framleiðslu í mjólkuriðnaði, enginn vafi á því. Undanþága eða leyfi til samstarfs hefur klárlega haft þar margt um að segja, þó það nú væri þegar veitt er alveg sérstök undanþága og gefin heimild í raun og veru til að skipuleggja þennan markað með þeim hætti sem hefur verið gert, það má vel ætla að úr því hafi náðst talsvert hagræði.

Það er hins vegar ekkert launungarmál að ég held að mjög stór hluti þess hagræðis sem náðst hefur hjá bændum sjálfum snýr meira að framleiðslustýringunni, mjólkurkvótanum og þeirri miklu hagræðingu og stækkun búa sem því framleiðslukerfi fylgdi og var til verulegra bóta fyrir bændur sjálfa. Ég hef alltaf talað af eindregnum stuðningi um það fyrirkomulag. Ég held að það hafi verið mjög mikilvægt skref til að tryggja að búin yrðu hagkvæmari einingar.

Ég dreg það hins vegar enn og aftur verulega í efa að neytendur hafi á endanum notið góðs af allri þeirri hagræðingu sem orðið hefur bæði á afurðastiginu og aftur í frumframleiðslunni með framleiðslustýringu á mjólkurkvóta, af því að þegar maður horfir á verðþróun mjólkurvara í vísitölu neysluverðs er ekki að sjá að neytendur hafi notið einhvers sérstaks ávinnings. Það er alla vega mjög erfitt að rökstyðja það þegar mjólk hækkar eiginlega umfram allar aðrar matvörur á sama tíma. Þess vegna segi ég að verulega skorti á samkeppni til að tryggja hagsmuni neytenda.

Það er svo aftur annað mál að hv. þingmaður vísar til óvissu fram undan varðandi mögulegan innflutning, EFTA-dómstól, tollabreytingar og annað þess háttar. Það er nákvæmlega sami rökstuðningurinn og var notaður fyrir undanþáguna á sínum tíma fyrir 14 árum síðan. Ég held að það hafi ekki rosalega mikið breyst (Forseti hringir.) í þessu umhverfi mjólkuriðnaðarins eða landbúnaðarins í heild á því tímabili. Váin hefur alla vega ekki verið jafn skammt undan og þá var óttast.