148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

64. mál
[19:16]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég segi enn og aftur að ég hef enga ástæðu til að vefengja þær tölur sem komu fram í skýrslu Hagfræðistofnunar en viðmiðunartímabilið þar endaði árið 2013. Síðan eru liðin fjögur ár. Verðþróunin virðist hafa verið talsvert önnur og meiri upp frá því þannig að þegar þær tölur eru skoðaðar, frá 2004 til ársloka 2017, hækkar mjólk umfram flestar ef ekki nær allar aðrar matvörur sem ég í það minnsta skoðaði.

Við getum rifist í allan dag eða alla næstu viku, þess vegna allan næsta mánuðinn um það hver hin eiginlega og rétta verðþróun á mjólkurafurðum er á þessu tímabili eða hver hún hefði átt að vera til þess að neytendur hefðu notið góðs af. Ég vil segja að það er aldrei nein rétt niðurstaða í því. Það sem skiptir öllu máli er að það sé einhver samkeppni sem tryggir að verðþróun sé sem hagkvæmust fyrir neytandann. Það tryggir á endanum besta mögulega verð fyrir neytandann. Að mínu viti á það ekkert síður við í mjólkuriðnaði en öðrum neytendavörum. Við eigum ekki að óttast samkeppni í þeim efnum.

Það er mikið gleðiefni hvað gengið hefur vel að hagræða í mjólkurframleiðslu og sérstaklega á kúabúum eða á mjólkurbúum. Það er mjög ánægjulegt að sjá þá gríðarlegu breytingu og miklu fjárfestingar sem hafa verið þarna, sjálfvirknivæðingu og gríðarlegu framleiðniaukningu. Þetta er allt til mikillar fyrirmyndar og gaman að sjá hvað hefur orðið ótrúlega mikil breyting á skömmum tíma.

Ég ætla að leyfa mér að segja hvað þann þáttinn varðar að ég hef miklu meiri trú á að þar hafi mjólkurkvótarnir ráðið öllu frekar en undanþága afurðastöðvanna frá samkeppnislögum. Ég held að það sé mjög mikilvægt að gera þarna greinarmun á. Við eigum auðvitað með þeim stuðningi sem við veitum til landbúnaðarins líka að vera að ýta undir jákvæða hvata til aukinnar hagræðingar og aukinnar framleiðni, bættrar afkomu bænda. Við viljum það. Þetta á ekki að vera hokurbúskapur eins (Forseti hringir.) og sauðfjárræktin er enn í dag. Við eigum að vera að leita leiða til þess að bæta (Forseti hringir.) afkomu bænda, en við eigum líka að tryggja góða samkeppni.