148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

64. mál
[19:19]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegur forseti. Enn og aftur þakka ég fyrir þessa umræðu og hvernig flutningsmenn hafa svarað andsvörum okkar og farið yfir málið. Ég hugsa að það sé best að taka það strax fram út af orðum sem hér hafa fallið að það er enginn hræddur við að ræða breytingar að sjálfsögðu, það er enginn hræddur við að skoða kerfið. Það er hins vegar ákveðnir prinsipphlutir í þessu systemi sem við þekkjum og vitum að eru mikilvægir og hafa virkað og skilað ákveðnum árangri. Við vitum það líka að ein af lykilástæðunum fyrir því, það eru margar ástæður að sjálfsögðu, að þokkalega hefur gengið í mjólkurbúskapnum er að það er undanþága frá hluta samkeppnislaga, mönnum er leyfilegt að starfa saman. Menn mega hagræða saman til að ná sem mestu út úr þessum rekstri. Það hefur m.a. orðið til þess að hann hefur gengið betur en kannski á horfðist fyrir fimmtán árum eða svo, ef við miðum við þann tíma.

Það hafa miklar breytingar orðið í kúabúskap og mjólkurgeiranum undanfarna áratugi. Það hefur að sjálfsögðu leitt til þess að mönnum hefur tekist að halda verðinu þokkalega lágu með því að hagræða og aftur hagræða, með því að geta unnið saman, með því að geta ráðstafað afurðunum eftir ákveðnu fyrirkomulagi. Ég ætla t.d. að leyfa mér að fullyrða að sú próteinverksmiðja sem opnuð var og vígð fyrir nokkrum mánuðum norður í Skagafirði hefði örugglega ekki risið og það verkefni ekki orðið að veruleika ef menn hefðu ekki haft þessi tækifæri og þennan möguleika að starfa saman, að safna saman hráefninu til þess að vinna úr því afurðirnar. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða það.

En ef ég vík aðeins að frumvarpinu, fer aðeins í gegnum það þá sýnist mér, hæstv. forseti, að það sé í raun ekki verið að gera svo miklar breytingar nema þegar kemur að samkeppnismálunum. Það eru nokkrar greinar sem ég ætla að fara í gegnum hér á eftir, en það er hins vegar mikilvægt að hafa í huga að styrkir eða greiðslur til landbúnaðarmála hafa lækkað gríðarlega mikið undanfarna áratugi, segjum bara síðastliðin 30 ár. Þá voru þær um 5% af landsframleiðslu, eru komnar í kringum 1% og eru á pari við okkar samanburðarlönd.

Ef við förum aðeins í gegnum einstaka greinar þessa frumvarps þá er m.a. lagt til að aðilar í mjólkuriðnaði geti keypt mjólk með sama tilkostnaði og markaðsráðandi afurðastöðvar. Þetta er í lögum og ég sé ekki að frumvarpið sé nokkur breyting frá því sem er í dag. Ég veit ekki betur en fyrirtæki bænda, Auðhumla, kaupi mjólk og sæki mjólkina heim til bænda en selji hana svo öðrum aðilum. Þar er skýrt kveðið á um að ákveðnir aðilar kaupi mjólk með afslætti. Ég held t.d. að fyrstu 300 þús. lítrarnir séu með 11% afslætti, eitthvað slíkt. Ég veit heldur ekki betur en það gangi bara ágætlega hjá sumum af minni aðilum í þessum geira í dag. Auðvitað höfum við dæmi um að þetta hafi ekki gengið hjá ákveðnum aðilum, en ég held að það sé frekar einhverju öðru um að kenna en akkúrat þessu systemi.

Síðan er lagt til að markaðsráðandi afurðastöð sé skylt að safna og taka við allri hrámjólk o.s.frv. Þetta er í rauninni eins og það er í dag. Það má heldur ekki gleyma því, ég ætla að skjóta því inn í, herra forseti, að bændur og þeir sem vinna mjólkina hafa ákveðnar skyldur, þeim ber að framleiða svo og svo mikið magn. Við megum ekki gleyma því að þetta er samningur á báða bóga. Það er ekkert óeðlilegt að menn fái eitthvað fyrir það, fyrir sinn snúð, svo getum við að sjálfsögðu, sem við erum að gera hér, deilt um hversu mikið og stórt það á að vera.

Hér er lagt til að markaðsráðandi afurðastöð verði skylt að selja óháðum afurðastöðvum og vinnsluaðilum mjólk sem nemur allt að 20% af þeirri hrámjólk sem hún tekur við. Þetta er nákvæmlega þannig í lögunum í dag, í 13. gr., þannig að það er ekkert nýtt þarna á ferðinni.

Það er líka lagt til að verð á hrámjólk verði ákveðið af verðlagsnefnd og gildi gagnvart framleiðsluhluta markaðsráðandi afurðastöðvar og óháðum aðilum. Sama jafnræði skal gilda um önnur viðskiptakjör og skilmála. Þetta er í rauninni þegar þannig í dag, þetta er kannski orðað eitthvað öðruvísi þarna.

Síðan er talað um að framleiðsluhluti markaðsráðandi afurðastöðvar verði aðskilinn frá annarri starfsemi afurðastöðvarinnar. Það er eins og það er í dag. Það er ekkert nýtt þarna.

Svo kemur fram að eftirlit með markaðsráðandi afurðastöð samkvæmt búvörulögum sé í höndum Samkeppniseftirlitsins.

Eins og hefur komið fram lýtur mjólkuriðnaðurinn almennum samkeppnislögum en nýtur ákveðinnar undanþágu. Það er akkúrat sú undanþága sem við höfum kannski verið hvað mest að tala um hér. Ég held að það sé mjög mikilvægt að árétta að þessi undanþága hefur gert það að verkum eða er hluti af því, hún er eitt af mörgum atriðum, að við erum með góðan eða ágætan rekstur í mjólkuriðnaðinum í dag, höfum getað boðið góða vöru og lágt verð, það er nýsköpun og alls konar góðir hlutir að gerast í þessari atvinnugrein.

Hér er lagt til að afurðastöðvum verði óheimilt að sameinast eða gera með sér samkomulag um verkaskiptingu o.s.frv. Það eru held ég mikil mistök og skammsýni að leggja þetta til vegna þess að þetta hefur verið ein af grunnforsendum þess að menn hafa getað þróað vörur, verið í nýsköpun, byggt upp þessar í rauninni fáu afurðastöðvar sem eru til í dag. Menn hafa getað samræmt framleiðslu og maður virðir alveg þau sjónarmið að mönnum finnist eðlilegt að það sé hægt að samræma framleiðsluna með einhverjum hætti, en fyrir því eru ákveðin rök. Við erum að fá góðar vörur á sanngjörnu verði. Það er enginn ofsagróði í mjólkuriðnaði, en þetta gengur þokkalega.

Ég ítreka sem ég sagði áðan að ég ætla að leyfa mér að efast um að menn hefðu farið í þetta góða og gríðarlega mikilvæga próteinverkefni fyrir norðan ef þeir hefðu ekki haft þessa undanþágu til að vinna saman af því að það skiptir svo miklu máli að geta einmitt deilt hráefninu á milli stöðvanna og samræmt sig, að þarna ætli aðilar að fara saman í að nýta þessa vöru, vinna fyrir umhverfið, minnka álagið á umhverfið og búa til hágæðavöru. Það kann vel að vera að við aðrar aðstæður, á stærri markaði þar sem væri margfalt meiri eftirspurn eftir þessum vörum sem verið er að framleiða úr mjólkinni, þá hefðu menn getað farið í þessa nýju framleiðslu án þess að fá einhverja sérstaka hjálp við það. Það kann að vera. En við þekkjum bara að þetta er það mikil fjárfesting að það hefði aldrei getað gengið á Íslandi.

Gleymum því ekki að tilgangi búvörulaganna er lýst með ákveðnum hætti í 1. gr. þeirra, „að stuðla að framförum og aukinni hagkvæmni í búvöruframleiðslu og vinnslu og sölu búvara til hagsbóta fyrir framleiðendur og neytendur.“

Að þessu hafa menn að sjálfsögðu unnið og farið eftir þessu boðorði búvörulaga.

Virðulegi forseti. Það er að sjálfsögðu hægt að fara miklu nánar í alla þessa umræðu og þetta ágæta frumvarp. Það kom fram í ræðu flutningsmanns frumvarpsins að þekkt dæmi eru um að aðrir aðilar hafi undanþágu frá samkeppnislögum. Ég held að það séu einhvers staðar á milli 20 og 30 dæmi um aðila sem fá undanþágur. Má þar nefna í orkugeiranum, það er ákveðin ríkisstarfsemi, póstþjónustan, fjarskipti, vatnsveitur, heilbrigðisþjónusta, skipulagslög, það er Neyðarlínan, lyfjamál, lyfjalög eru hér nefnd, loftferðir, leigubifreiðar o.s.frv.

Það getur vel verið að menn geti sagt að þetta sé óeðlilegt, allar þessar undanþágur, en af einhverjum ástæðum veitum við þær. Við veitum þær m.a. vegna þess að við erum mjög smá og tiltölulega einangruð hvað varðar ákveðna hluti. Við þurfum ákveðna innviði og uppbyggingu til þess að samfélag okkar gangi um allt land. Ég vil meina að hluti af því sé að við getum verið með öflugt landbúnaðarkerfi, við getum verið með öfluga framleiðslu á landbúnaðarvörum, m.a. í mjólkuriðnaðinum. Þess vegna sé mikilvægt að menn hafi leyfi og heimild til þess að vinna saman, til þess að hagræða og ná fram sem bestum rekstri vegna þess að ég held að það skili sér og hafi skilað sér til neytenda. Það kann vel að vera að menn geti fundið dæmi um að það þurfi að vera meira, það þurfi að skila sér betur til neytenda. Þá eigum við að sjálfsögðu að skoða það.

Ég vil taka fram að það er enginn hafinn yfir gagnrýni. Hvort sem það er Mjólkursamsalan, kúabændur, einhverjir aðrir, það er enginn hafinn yfir gagnrýni. Allur rekstur á að sjálfsögðu að vera gagnsær þegar menn njóta einhverra undanþágna. Ég held að hann sé það í rauninni. Ég held að ekki sé hægt að segja annað en að allt sé uppi á borðinu þegar kemur að þessum málum.

Það er hins vegar þannig að við verðum öll að sætta okkur við það að meðan ákveðin lög eru í gildi eins og lögin frá 2004 þá verða allir aðilar að vinna eftir þeim, hvort sem þeir heita bændur eða afurðastöðvar eða Samkeppniseftirlitið eða aðrir, það verða allir að vinna eftir lögunum sem í gildi eru.

Herra forseti. Ég hef ekki ástæðu til annars en að ætla að frumvarpið fái ítarlega og góða yfirferð í atvinnuveganefnd. Þetta er býsna stórt mál. Það er verið að leggja til grundvallarbreytingar á mjög stórum hluta íslensks landbúnaðar. Ég ætla að leyfa mér að þakka flutningsmönnum fyrir að leggja það fram því við þurfum einmitt að fá fram þingmál þar sem við getum rætt meiningarmun okkar, rætt hvaða sjónarmið og ólíku skoðanir við höfum á lögum og umhverfinu sem við erum að skapa á Íslandi. Það er ekkert að því að við tökumst á, en það er hins vegar mjög mikilvægt að allur rökstuðningur sem kemur svo í framhaldinu út úr nefndinni og hér inn í þingið — þetta mál fær vitanlega þrjár umræður, þetta er lagafrumvarp — sé vel ígrundaður og byggður á traustum grunni. Hafandi nokkra reynslu get ég svolítið séð fyrir mér hvaða athugasemdir koma og frá hverjum og hvernig þær verða orðaðar um þetta frumvarp. Það er ágætt að hafa ákveðna vissu í hlutunum, en ég treysti því að atvinnuveganefnd komi með vel rökstutt nefndarálit inn til þingsins þegar að því kemur þannig að við getum haldið áfram að ræða hvað sé gott og hvað sé miður gott fyrir íslenska neytendur og bændur og búalið.