148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

64. mál
[19:38]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit ekki alveg hvort rétt er að bera saman olíusölufyrirtækin og mjólkuriðnaðinn. Minnst var á Costco í dag. Ég fagnaði óskaplega þegar Costco kom og ég gat farið að dæla bensíni þeim því að ég gerði mér vonir um að það mundi lækka bensínið hjá öðrum, en ég ætla ekki að fara dýpra í það. Menn geta verið ósammála því sem ég ætla að segja núna en ég ætla að leyfa mér að taka frekar sem dæmi fjarskipti eða raforkumarkaðinn. Raforkumarkaðurinn er gríðarlega mikilvægur fyrir innviði landsins. Menn hafa verið sammála um að ágætishagræði sé í því að þeir þurfi að vinna saman. Við erum með eitt dreifingarfyrirtæki, Landsnet. Ég hugsa að hægt sé að færa rök fyrir því að ekki sé endilega gott að hafa eitt dreifingarfyrirtæki, en ég hugsa að það myndi ekki heldur borga sig þjóðhagslega að vera með mörg dreifingarfyrirtæki.

Ég lít á landbúnaðinn, og mjólkurframleiðsluna þar af leiðandi, sem gríðarlega mikilvægan þátt, og nú þarf maður að passa sig að nota ekki stóru orðin, í sjálfstæði landsins og í því að við höfum í okkur og á og getum búið við ákveðið fæðuöryggi og slíkt. Það er mjög mikilvægt að slíkar greinar séu sterkar og séu í þannig umhverfi að þær geti skaffað okkur vörur sem við erum sátt við.

Getum við aukið samkeppnina í þessum geira? Örugglega, en þurfum við að fara þessa leið til þess? Ég held við þurfum þess ekki. Við getum kannski smám saman skilgreint betur hlutverk smærri aðila og gert umhverfi þeirra einfaldara á einhvern hátt, ég útiloka það ekki, en ég myndi segja að það væri gott í dag og hefði verið að þróast í rétta átt undanfarið.

Ég vil ekki leggja olíu og landbúnað að jöfnu því að ég lít á landbúnaðinn sem hluta af innviðum okkar. Það er kannski gamaldags en ég er þá bara gamaldags.