148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

64. mál
[19:40]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Herra forseti. Ég ætla í lok umræðunnar að þakka sérstaklega fyrir þessa áhugaverðu umræðu. Ég fagna sérstaklega, sem veit á gott, þrátt fyrir að augljóst sé að ég og til að mynda hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson séum ekki endilega sammála um nálgun, þessari málefnalegu nálgun og að fólk fór ekki í skotgrafir hér um hvernig við viljum byggja upp íslenskan landbúnað. Það eru miklu fleiri þættir sem ég greindi sem sameina okkur heldur en sundra í þessu máli, þ.e. að við viljum hag og eflingu íslensks landbúnaðar, hvort sem það er í sauðfjárrækt — ég ætla að leyfa mér að tala um sauðfjárræktina líka — eða á sviði kúa eða mjólkurframleiðslu.

Ég tel mikilvægt að við tökum þetta mál áfram. Það er ekki að ósekju að við höfum dregið það fram að Samkeppniseftirlitið hefur heimilað í þágu almannahagsmuna ákveðnar undanþágur á sviði orkudreifingar og síðan á sviði fjarskiptamála. Þar hefur Samkeppniseftirlitið sérstaklega ályktað um að hægt er að fara í ákveðna samvinnu í ljósi almannahagsmuna. Það sem er lykilatriði í þessari nálgun hjá okkur öllum er að við látum almannahagsmuni ganga framar sérhagsmunum. Við trúum því að með því að afnema þær sérreglur sem mjólkuriðnaðurinn hefur í dag og fékk árið 2004 munum við ná því markmiði okkar fram, um leið og við eflum íslenskan landbúnað sem við viljum halda áfram að efla og styrkja. Hann gerir það með almennum leikreglum.

Ég hefði getað og gjarnan viljað fara í að ræða um sauðfjárrækt gagnvart mjólkurbændum eða kúabændum, því að ekki er hægt að segja að sauðfjárræktin búi við almenn skilyrði. Það er ekki hægt að segja að sauðfjárræktin í dag búi við almenn samkeppnislög þegar reglulegt inngrip er af hálfu ríkisins með beinum og óbeinum stuðningi, annars vegar með tollvernd, hins vegar með beinum styrkjum eins og við vorum að ræða á síðasta ári og hefur komið upp reglubundið vegna þess að ekki er tekið á ákveðnum málum, það er ekki horfst í augu við ákveðinn vanda sem þar er. En það bíður annarrar umræðu.

Ég vil sérstaklega þakka fyrir þessa málefnalegu nálgun, mikilvægu umræðu, í þágu íslensks landbúnaðar og íslenskra neytenda. Ég hvet hv. atvinnuveganefnd til að fara mjög vel yfir þetta og klára málið þannig að við getum haldið áfram að ræða það hér við 2. umr. Ég vona að þingmenn hér inni styðji okkur í Viðreisn í þeirri viðleitni okkar.