148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

embættisfærslur dómsmálaráðherra.

[10:39]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Þessi greinilega skipulagða uppákoma af hálfu þingmanna stjórnarandstöðunnar er mjög sérkennileg í ljósi þess að það mál sem hér er um að ræða er enn þá til umræðu í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, að ég hélt. Ég hélt að eitthvert framhald yrði á því í næstu viku, jafnvel þó að nefndin muni þá hugsanlega stíga til hliðar meðan aðrir þættir eru í athugun í þessu máli.

Um þetta má auðvitað margt segja sem á heima í lengri umræðu en á sér stað hér í umræðum um störf þingsins. En fyrst ber að geta þess að menn geta haft mismunandi skoðanir á dómum Hæstaréttar en eftir dómsorðinu er auðvitað farið. Það er það sem skiptir máli. Í þessu tilviki var ógildingarkröfu hafnað, skaðabótakröfu var hafnað en dæmd miskabótakrafa, sem verður auðvitað greidd, 700.000 til hvors þeirra sem stefndu í þessum tveimur málum.

Ásakanir á hendur hæstv. dómsmálaráðherra eru að mínu mati fullkomlega tilhæfulausar. Hafi menn fylgst með og hlustað á þær umræður sem áttu sér stað í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd (Forseti hringir.) í gær og skýringar ráðherra ættu menn að gæta orða sinna í þessari umræðu hér.