148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

embættisfærslur dómsmálaráðherra.

[10:41]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Þetta mál er ákaflega dapurlegt og í raun sorglegt, sérstaklega í ljósi þess að verið hafa miklar væntingar til þessa nýja dómstigs og margir beðið eftir því. Hæstiréttur hefur talað og fellt dóm yfir embættisfærslum dómsmálaráðherra. Niðurstaða dómsins er skýr: Ráðherra gerðist brotlegur við 10. gr. stjórnsýslulaga. Eins og segir í dómnum hafnar hann einnig þeirri málsvörn ráðherrans að Alþingi sé ákvörðunarvald í málinu en ekki ráðherra þar sem ráðherra leggi aðeins til við Alþingi nöfn sem Alþingi samþykki og leggi til við forseta til skipunar.

Hæstv. forsætisráðherra, sem er því miður ekki viðstödd þessa umræðu, hefur tjáð sig um þetta mál og ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með það. Ég trúi því ekki að hæstv. forsætisráðherra leggi blessun sína yfir þessar embættisfærslur.