148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

embættisfærslur dómsmálaráðherra.

[10:44]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Okkur er vitanlega ákveðinn vandi á höndum. Það er ljóst að ráðherra hefur verið dæmdur af æðsta dómstóli landsins. Fyrir mér er það prinsippmál. Ég hef spurt hæstv. forsætisráðherra út í málið, hvenær brot sé nógu alvarlegt til að ráðherra þurfi að axla ábyrgð. Ég hef ekki fengið nein svör frá forsætisráðherra við því.

Það er alveg ljóst að hæstv. dómsmálaráðherra hefur haldið mjög óhönduglega á þessu máli. Ég held að það dyljist engum. Segja má að ráðherrann hafi orðið tvísaga í einhverjum tilvikum, en ég held hins vegar að það verði líka að hafa í huga að ráðherra ber ákveðna ábyrgð, ráðherra er falin ákveðin ábyrgð. Það er ekki hægt að segja við ráðherra á sama tíma að honum beri að fara eftir einhverri nefnd úti í bæ en beri samt ábyrgðina.

En þeim ráðherra sem hér um ræðir tókst illa upp og var dæmdur fyrir hvernig hann hélt á málum sínum. Það er það sem mér finnst aðalmálið, ráðherra sem dæmdur hefur verið getur varla setið í skjóli Alþingis. Auðvitað getur hann það ef þeim alþingismönnum (Forseti hringir.) sem verja slíkt þykir það bara allt í lagi.