148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

embættisfærslur dómsmálaráðherra.

[10:45]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er svo merkilegt í málflutningi hæstv. dómsmálaráðherra að hún er ósammála dómnum en ætlar ekki að deila við dómarann. Hún segist axla ábyrgð en leggur ábyrgðina í hendur þingsins. Hæstv. ráðherra getur ekki einu sinni viðurkennt mistökin. Þá verðum við að spyrja okkur hér í nefndum og í störfum Alþingis almennt í hvert einasta sinn sem hæstv. dómsmálaráðherra kemur fram með tillögu sem þingmenn hafa áhuga á: Á þá alltaf að vefengja allt sem ráðherrann segir? Eigum við alltaf að vera að spyrja hvað sérfræðingarnir sögðu? Eigum við alltaf að vera í þeim fótsporum? Það er afleiðing þess hvernig hæstv. dómsmálaráðherra hefur brugðist við þessum atburði. Hún sýnir enga iðrun, ekki að hún skilji einu sinni að þetta hafi verið mistök — deilir ekki við dómarann, en er samt ósammála dómnum.

Hvað ætlar hæstv. dómsmálaráðherra að gera næst? Það er alger grunnforsenda trausts, þegar fólk gerir einhvers konar mistök, hvort sem þau eru lagabrot eða öðruvísi, að það viðurkenni alla vega mistökin og sýni smávægilega viðleitni til þess að breyta öðruvísi í framtíðinni. Við fáum ekkert slíkt. Pólitísk ábyrgð, virðulegi forseti? Hvílíkt bull!