148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

embættisfærslur dómsmálaráðherra.

[10:48]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Dómsmálaráðherra varpaði í gær ábyrgðinni á skipun dómara í Landsrétt yfir á Alþingi. En hver og einn þingmaður er bundinn sannfæringu sinni. Þegar málið um skipun dómara í Landsrétt kom til Alþingis ákváðu sumir þingmenn að treysta því að ráðherra hefði skilað faglegri vinnu og sinnt rannsóknarskyldu sinni. Aðrir voru ekki jafn sannfærðir. Síðan þá hefur komið í ljós að þingmenn fengu ekki allar upplýsingar um málið frá ráðherra. Þar vantaði t.d. að efasemdir sérfræðinga úr ráðuneytinu bærust þinginu. Þær gagnrýnisraddir hefðu átt að berast þingmönnum.

Með því að halda upplýsingum frá Alþingi er ráðherra í yfirburðastöðu gagnvart öðrum þingmönnum þegar kemur að atkvæðagreiðslum. Ráðherra er líka þingmaður og í þessu máli greiddi hún, þá sem þingmaður, atkvæði gegn því að vísa málinu aftur til ráðherra, þá væntanlega eini þingmaðurinn sem hafði vitneskju um gagnrýnisraddir sérfræðinganna. Þar sem ráðherra var eini þingmaðurinn sem hafði þessar upplýsingar, hvílir þá ekki öll sú ábyrgð sem hún varpar yfir á Alþingi á hennar eigin herðum?