148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

embættisfærslur dómsmálaráðherra.

[10:50]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég, líkt og fleiri þingmenn, er verulega hugsi yfir málatilbúnaði hæstv. dómsmálaráðherra. Það þarf ekki að fjölyrða um mikilvægi þess að skipan dómstóla sé yfir allan vafa hafin og það á ekki hvað síst við þegar verið er að skipa 15 dómara í nýjan rétt eins og hér um ræðir. Þetta mál er mér því mikil vonbrigði, svo ekki sé sterkar að orði kveðið, að hæstv. dómsmálaráðherra hafi ekki upplýst þingið um þær efasemdir sem fjölmargir sérfræðingar höfðu viðrað við hana fyrir afgreiðslu þingsins á tillögu ráðherra. Það tel ég vítaverð vinnubrögð af hálfu ráðherra.

Það ber að hafa í huga að vissulega er ráðherra heimilt að víkja frá ráðleggingum sérfræðinga en það gerir ábyrgð ráðherra á þeirri ákvörðun enn ríkari en ella. Það hlýtur því þurfa að skoða sérstaklega í huga þess þegar í ljós kemur að dómur fellur einmitt á grundvelli þeirrar ráðleggingar sem ráðherra hafði áður en ákvörðun var tekin.