148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

embættisfærslur dómsmálaráðherra.

[11:01]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Það er alveg rétt að þingflokkur Viðreisnar lagði á sínum tíma ríka áherslu á að jafnréttislög giltu um þessa skipan. Jafnréttislög eru alveg skýr í því samhengi. Þar er hæfi fyrst og kynjahlutfall svo. Við vorum ekki að biðja hæstv. dómsmálaráðherra að ganga gegn lögum. Við vorum eingöngu að biðja hæstv. ráðherra að gæta þess að jafnréttissjónarmiða væri gætt, að jafnréttislög giltu um skipan dómara í þessu tilviki.

Hafi ráðherra, líkt og hv. þm. Óli Björn Kárason kemur inn á, við þá beiðni verið komin í svo slæma stöðu að hún teldi sig vera að brjóta gegn lögum eða eðlilegri skipan dómstólsins hefði henni verið hægur leikur að taka það mál upp og segja: Þessi tillaga gengur ekki upp, mínir helstu sérfræðingar benda mér á að þetta gangi einfaldlega ekki upp.

Það virtist vera einróma ráðlegging hennar helstu sérfræðinga að tillaga hennar gengi ekki upp. Um það upplýsti hún ekki þingið. Þar liggur kjarni máls.