148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

fylgdarlaus börn á flótta.

[11:10]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Það er ótrúlega sorglegt að hlusta á hæstv. dómsmálaráðherra tala um fylgdarlaus börn á flótta sem viðfangsefni. Það verður einhvern veginn svo ótrúlega mikil fjarlægð frá því að í fangelsi nú, á Hólmsheiði eftir flutning, situr drengur sem aldursgreiningar hafa farið fram á sem segja að eigi að fá að njóta vafans. Hann er líklega jafn gamall og hann segist vera. Rauði krossinn hefur eindregið beint tilmælum til stjórnvalda um að hætta að styðjast við þessar aldursgreiningar. Í skýrslu Evrópuráðsins er talað um að aldursgreiningar séu mjög vafasamar. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna gaf út leiðbeiningarreglur um aldursgreiningar og bendir á að líkamsrannsóknir til aldursgreininga séu afar umdeildar. Samtökin Læknar án landamæra um allan heim segja líka að þessar (Forseti hringir.) rannsóknir séu allar mjög vafasamar. Engu að síður eru stjórnvöld á Íslandi með dreng í haldi í rúmlega 80 daga, í gæsluvarðhaldi, vegna þess að íslensk stjórnvöld telja að hann sé ekki lengur barn. Ætlar hæstv. (Forseti hringir.) dómsmálaráðherra að beita sér af alvöru til þess að við komum ekki (Forseti hringir.) svona fram við fylgdarlaus börn á flótta?

(Forseti (SJS): Bið hv. þingmenn að gæta að tímamörkum.)