148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

fylgdarlaus börn á flótta.

[11:12]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég veit ekki hvort það er umræðu um þessi mál eitthvað til framdráttar að hengja sig í framsetningu eða orðræðu einstakra þingmanna eða þess ráðherra sem hér stendur um þessi mál, að telja það sorglegan málflutning sem ég var með í fyrra andsvari þegar ég lýsi því yfir, sem er bara staðreynd, að fylgdarlaus börn væru nýtt viðfangsefni og væru áskorun fyrir Íslendinga og íslenska stjórnsýslu og vörðuðu alvarlegt mál. Það þurfa allir að horfast í augu við það. Það er auðvitað eins og hvert annað verkefni og það gerir ekkert lítið úr málinu þótt um það sé talað sem slíkt, enda er það á dagskrá hjá okkur.

Hér var vísað til þess, hv. þingmaður kom sjálfur inn á það, að þau fylgdarlausu börn sem hingað komu hafi verið látin njóta vafans. Einstaklingar eru látnir njóta vafans við mat á þessu. Það fer fram heildstætt mat. Það kemur þó ekki í veg fyrir (Forseti hringir.) að þeir sem hljóta hér dóm fyrir dómstólum þurfi að afplána dóma eða sæta gæsluvarðhaldi ef á þarf að halda (Forseti hringir.) að undangengnu mati lögregluyfirvalda og dómstóla.