148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

kolefnisjöfnun í landbúnaði.

[11:13]
Horfa

Maríanna Eva Ragnarsdóttir (M):

Herra forseti. Mig langar til að taka upp fyrirspurn sem var lögð fyrir hæstv. landbúnaðarráðherra í síðustu viku af hv. varaþingmanni Miðflokksins, Elvari Eyvindssyni, er varðaði kolefnisjöfnun og endurheimt votlendis. Fyrirspurninni var ekki svarað þar sem hæstv. landbúnaðarráðherra vísaði henni að mestu leyti til hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra. Því óska ég eftir svörum frá honum varðandi þetta mál.

Mikið er rætt um kolefnisjöfnun og kolefnisfótspor þessa dagana og hefur spunnist talsverð umræða um endurheimt votlendis í kjölfar þess. Af fréttum í Bændablaðinu nýverið má ráða að ekki séu til mikil gögn um málið og að jafnvel sé verið að nota erlenda stuðla í mælingum til að meta losunina sem henti kannski ekki í þessu tilfelli.

Fyrirspurnin er því svohljóðandi: Verður farið í auknar rannsóknir á þessari meintu losun koltvísýrings úr framræstu landi og hvenær má þá búast við að þær líti dagsins ljós?