148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

kolefnisjöfnun í landbúnaði.

[11:15]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Svarið er: Já, farið verður í auknar rannsóknir á þessu sviði. Það er þannig núna að á síðasta ári voru um 20 milljónir sem voru sérstaklega ætlaðar í verkefni á sviði endurheimtar votlendis og hluti af þeirri upphæð fór í að sinna rannsóknum. Þessi upphæð er áfram á þessu ári en að auki við það erum við að leita leiða í ráðuneytinu núna til að nýta tímann þar til aðgerðir byrja vonandi af meiri krafti síðar, þá kannski á næstu árum, til að auka rannsóknir enn frekar. Það er rétt að þarna þarf að bæta rannsóknir. En hvað varðar þá alþjóðlegu staðla sem hv. þingmaður benti á eru þeir í ágætum takti við það sem þó hefur verið rannsakað hérlendis þannig að ekki er óeðlilegt að nýta þá. Hins vegar er gríðarlega mikill breytileiki á milli mismunandi gerða votlendis og líka í tíma og rúmi, þ.e. það er mismunandi votlendi og síðan fer þetta líka eftir tíma. Til dæmis getur vatnsstaðan haft mjög mikil áhrif á það hversu mikið er að losna út úr þessum votlendum. Þegar vatnsstaðan er há er það minna.