148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

pólitísk ábyrgð ráðherra.

[11:25]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ef hv. þingmaður ætlar áfram að gera sér mat úr þessu máli, sem mér finnst alveg sjálfsagt að hv. þingmaður geri áfram, verður hann að gera örlítið betur en að vera með þennan orðhengilshátt um hvað haft er eftir ráðherranum um einstök orð í fjölmiðlum um það hverjum hafi verið veitt einhver skjöl. Það liggur fyrir, svo því sé haldið til haga, að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd óskaði eftir tilteknum gögnum með tiltekinni fyrirspurn. Sá gagnapakki var afhentur eingöngu stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Sú fyrirspurn var ekki send neinum öðrum en þeim fyrirspyrjanda, sem var hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Umboðsmaður Alþingis hafði lagt fram annars konar fyrirspurn í ráðuneyti dómsmála og fékk svör við henni og tiltekinn gagnapakka sem í voru m.a. þau skjöl sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd (ÞSÆ: En hvað með afganginn …?) óskaði eftir, svo því sé haldið til haga.

Ég hef nefnt það hér, og hef ekki gert annað en að vitna í virðulega stjórnskipunarfræðinga við Háskóla Íslands, að ákvörðunarvaldið í þessu máli var hjá Alþingi og er (Forseti hringir.) enn hjá Alþingi þegar upp koma þessar aðstæður. Menn kunna að vera ósammála því (Gripið fram í.) og þeim kann að finnast það óþægilegt en þannig er staðan og ráðherra getur ekki starfað eftir öðru. Ákvörðun um tillögu til Alþingis (Forseti hringir.) liggur að sjálfsögðu hjá ráðherranum en Alþingi hafði og hefur enn þá ákvörðunarvald í þeim tilvikum þegar ráðherra ákveður að víkja frá tillögu dómnefndar.