148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

aðgengi að íslenskum netorðabókum.

[11:32]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni enn og aftur fyrir innlegg hans og þau brýningarorð og fyrir það að ég eigi svona öflugan liðsmann er varðar þennan málaflokk. Ég vil nefna að ég tek undir með hv. þingmanni, við þurfum að auka aðgengi að orðabókum, og ég mun ráðast í það verk að skoða þá möguleika. Að auki vil ég nefna að eitt af því sem við höfum fjármagnað að fullu er máltækniverkefnið sem miðar að því að gera íslenskuna gildandi í stafrænum heimi. Það verkefni er að fullu fjármagnað sem ég tel mjög jákvætt. Þarna erum við að vinna með atvinnulífinu með það hvernig við ætlum að láta tækin okkar tala við okkur á íslensku. Þetta verkefni hefur stundum verið nefnt Guðbrandsbiblía vorra tíma og ég held að mjög gagnlegt væri fyrir þennan málaflokk að ég leitaði eftir auknu samráði við þingið varðandi þær tillögur og þá þingsályktunartillögu sem ég er að boða til þess að fá jafn góðar hugmyndir og hafa verið nefndar.