148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

áhrif Brexit á efnahag Íslands.

[11:38]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Það er alveg rétt sem kemur fram í máli hæstv. utanríkisráðherra að í Brexit geta falist ýmis tækifæri fyrir vörur sem nú eru undir tollum í EES-samningnum, t.d. í sjávarútvegi. Það er engin ástæða til að gera lítið úr þeim tækifærum sem þar kunna að felast en við vitum líka að við eigum í umtalsvert miklum þjónustuviðskiptum við Breta. Það eru leiddar að því líkur að breskt fjármálakerfi muni veikjast verulega vegna Brexit. Raunar eru þegar farin að sjást merki þess að alþjóðleg fjármálafyrirtæki séu að færa starfsemi sína eða draga úr vægi starfsemi sinnar í Bretlandi og færa yfir til meginlands Evrópu í aðdraganda Brexit.

Ég hef ekki séð að það hafi verið lagt mjög heildstætt mat á heildaráhrifin þegar kemur að íslensku efnahagslífi, ég hef vissulega séð reifaðar ýmsar vangaveltur en þess vegna spyr ég í ljósi þess mats sem bresk stjórnvöld hafa lagt á áhrif þessa fyrir sinn efnahag: Er ekki einmitt rík ástæða til þess fyrir (Forseti hringir.) íslensk stjórnvöld að leggja sambærilegt mat á áhrif Brexit fyrir íslenskan efnahag og hvernig við getum mögulega brugðist við því? (Forseti hringir.) Það er alveg ljóst að ógnanir okkar liggja á talsvert fleiri sviðum en bara tækifærin í sjávarútvegi.