148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

áhrif Brexit á efnahag Íslands.

[11:40]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Við hv. þingmaður erum þó alla vega sammála um að það eru tækifæri fyrir Ísland þegar kemur að útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. (Gripið fram í.) Það er alla vega gott. Þá liggur það bara fyrir, við þurfum ekkert að ræða það meira, því að það fer augljóslega mjög í taugarnar á hv. þingmanni þegar maður vísar til þess að það séu tækifæri í heiminum.

Svo það sé líka sagt; þó að EES-samningurinn sé okkar mikilvægasti viðskiptasamningur var það ekki þannig að Evrópusambandið fyndi upp fríverslun. Fríverslun er víðs vegar um heiminn og fríverslun er ekki bara um vörur. Tollar eru bara mjög lítill hluti af því. Það sem snýr að tæknilegum viðskiptahindrunum … (Gripið fram í.) Hv. þingmaður á eitthvað erfitt með sig núna, allt í góðu með það.

Stærsta ógnin almennt er tæknilegar viðskiptahindranir. Við erum svo sannarlegar farin mikið úr þessum hefðbundnu vöruviðskiptum yfir í allra handa þjónustuviðskipti. Ferðaþjónustan er t.d. mikilvægasta atvinnugreinin hjá okkur núna, svo enn eitt dæmið sé tekið, þannig að þetta er stór mynd.

Ástæðan fyrir því að við höfum haft þetta opið varðandi Brexit-vinnuna, kallað aðila að, kynnt þetta fyrir þinginu, er sú að við viljum fá fram allar athugasemdir og ábendingar. Við höldum áfram þessari vinnu, við lítum á þetta heildstætt. Ef hv. þingmaður kemur með einhverjar góðar ábendingar (Forseti hringir.) til þess að gera enn betur tökum við því fagnandi en það á ekki bara við um hv. þingmann heldur hagsmunaaðila og þjóðina alla.