148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

útlendingar.

42. mál
[11:52]
Horfa

Flm. (Rósa Björk Brynjólfsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 80/2016, um útlendinga (fylgdarlaus börn).

Um er að ræða breytingar á sex greinum útlendingalaganna. Þær sem skipta hvað mestu máli lúta að hlutverki Barnaverndarnefndar og Barnaverndarstofu þegar kemur að málefnum fylgdarlausra barna. Einnig er áhersla lögð starfrækslu móttökumiðstöðvar og móttökuheimilis fyrir börn. Með leyfi forseta vil ég lesa hér upp úr breytingartillögu á 27. gr. laganna á lögum nr. 80/2016, um útlendinga, sem orðast svo ásamt fyrirsögn:

„Móttökumiðstöð og móttökuheimili barna.

Ráðherra ber ábyrgð á að starfrækt sé móttökumiðstöð fyrir lögráða umsækjendur um alþjóðlega vernd sem og sérstakt móttökuheimili fyrir börn þar sem starfsemin miðast við að rækja til fulls og á mannúðlegan hátt skyldur hins opinbera við umsækjendur um alþjóðlega vernd og þannig að tekið sé tillit til ólíkra þarfa einstaklinga og hópa og öryggi þeirra tryggt. Ráðuneytið getur eftir atvikum falið viðeigandi stofnun, sveitarfélagi, félagasamtökum eða öðrum rekstur þessarar starfsemi á grundvelli þjónustusamninga þar sem hlutverk og skyldur rekstraraðila eru ítarlega skilgreind. Ráðuneytið skal fylgjast reglubundið með framfylgd samningsins. Hvorki er heimilt að starfrækja móttökumiðstöð eða móttökuheimili í hagnaðarskyni né án þjónustusamnings við ráðuneytið.

Móttökumiðstöð og móttökuheimili skulu vera athvarf umsækjenda um alþjóðlega vernd frá því að þeir koma til landsins þar til lyktir verða á umsókn þeirra og einnig eftir atvikum fórnarlamba mansals og útlendinga í neyð meðan fjallað er um mál þeirra. Fylgdarlausum börnum undir 18 ára aldri, sem sækja um alþjóðlega vernd og eru fórnarlömb mansals eða eru í neyð af öðrum ástæðum, skal boðin dvöl á móttökuheimili barna ætluðu þessum aldurshópi svo lengi sem þörf er á eða þar til varanleg lausn finnst á málefnum þeirra. Móttökuheimili barna skal hafa tengsl við leikskóla, skóla, heilsugæslu og aðra opinbera starfsemi sem lýtur að velferð barna og þar skal starfa fagfólk á sviði uppeldis og menntunar.

Er fylgdarlaust barn kemur á móttökuheimili skal lagt faglegt mat á stöðu þess og þarfir og gerðar ráðstafanir til að uppfylla þær eins og best verður á kosið. Leita skal eftir sjónarmiðum barnsins og taka tillit til óska þess og vilja eins og unnt er. Forstöðumaður móttökuheimilis skal gera ráðuneytinu skriflega grein fyrir stöðu barnsins og áformum varðandi það meðan dvöl þess á móttökuheimilinu varir. Ráðherra setur reglugerð um nánari framkvæmd þessa ákvæðis, m.a. um stofnun og starfsemi móttökumiðstöðvar og móttökuheimilis barna og þær kröfur sem slík starfsemi þarf að uppfylla með tilliti til ólíkra þarfa og réttarstöðu þeirra sem þar dvelja.“

Ég vil nefna aðra breytingartillögu við núverandi lög um útlendinga sem ég er líka að leggja fram með frumvarpinu og lýtur einnig að móttöku á fylgdarlausum börnum. Hún varðar 5. mgr. 28. gr. laga um útlendinga. Tillaga mín í frumvarpinu hljóðar svo:

„Sá sem tekur viðtal við barn skal hafa sérþekkingu á málefnum barna. Starfsmaður barnaverndaryfirvalda skal ávallt vera viðstaddur viðtöl Útlendingastofnunar við börn, sbr. a-lið 2. mgr. 31. gr. Þegar um fylgdarlaust barn er að ræða skal réttindagæslumaður þess skv. 6. mgr. 24. gr. ávallt vera viðstaddur viðtal.“

Mig langar líka að ræða aðra breytingartillögu á núverandi lögum, sem kemur fram í frumvarpinu. Hún er eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Þegar niðurstaða er fengin í málefnum barns skal Barnaverndarstofa útvega barni varanlegan samastað, svo sem á fósturheimili, sjá til þess að hagsmunir barns séu ávallt hafðir í fyrirrúmi og að barnaverndarnefnd ræki skyldur sínar gagnvart barni á viðeigandi hátt og í samræmi við barnaverndarlög, m.a. hvað varðar búsetu, heilbrigðisþjónustu og möguleika til menntunar.“

Einnig skal tryggja barni örugga búsetu í samræmi við ákvæði barnaverndarlaga; börn undir 18 ára aldri dvelji á sérstöku móttökuheimili barna eða í sambærilegu úrræði.

Það sem mestu máli skiptir í því frumvarpi sem ég mæli fyrir er að lagðar eru til breytingar á lögum um útlendinga sem miða að því að efla rétt fylgdarlausra barna. Þó svo að ákvæði útlendingalaga nr. 80/2016, sem tóku gildi 1. janúar 2017, sem taka m.a. til fylgdarlausra barna og meðferðar mála þeirra, feli í sér verulegar umbætur frá eldri útlendingalögum þar sem engin ákvæði voru um fylgdarlaus börn, þá skortir nokkuð mikið á að þessum hópi umsækjenda um alþjóðlega vernd sé tryggður skýr aðbúnaður og aðstoð við hæfi.

Eins og staðan er núna skiptir mestu máli í þessu sambandi að ekki gert ráð fyrir sérstökum dvalarstað fyrir fylgdarlaus börn heldur er einungis gert ráð fyrir einni móttökumiðstöð þar sem allir aldurshópar dvelja saman.

Ekki verður annað ráðið af 27. gr. laga um útlendinga en að þar sé gert ráð fyrir að fylgdarlausum börnum sé ætlaður samastaður, þ.e. í móttökustöð, með fulltíða einstaklingum. Hið sama er að segja um ákvæði í 24. gr. reglugerðar nr. 540/2017, um útlendinga, þó að þar sé vissulega ákvæði um að leitast skuli við að tryggja réttindi barna og réttindi fatlaðra einstaklinga.

Hins vegar verður, eins og ég sagði áðan, ekki annað ráðið af lagagreininni en að gert sé ráð fyrir að fylgdarlausum börnum sé ætlaður samastaður í móttökumiðstöð ásamt fulltíða einstaklingum. Slík tilhögun er einfaldlega ekki boðleg með tilliti til öryggishagsmuna barna, enda vart í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem lögfestur hefur verið hér á landi, samanber lög nr. 19/2013.

Af þeim sökum er lagt til að auk móttökustöðvar verði komið á fót móttökuheimili fyrir fylgdarlaus börn upp að 18 ára aldri. Einnig er lagt til að slíkt heimili verði nægilega tengt því starfi sem hið opinbera heldur úti í þágu barna til þess að börnum sem dvelja á móttökuheimili gefist færi á að njóta skólagöngu, íþrótta- og tómstundastarfs, heilsugæslu og annarrar starfsemi sem börnum býðst að taka þátt í eða njóta góðs af, enda er það á ábyrgð stjórnvalda að tryggja flóttabörnum alþjóðlega viðurkennd réttindi sín og mikilvægt að þau sinni skyldum sínum við þennan vanmáttugasta hóp flóttamanna.

Við samningu þessa frumvarps var höfð hliðsjón af kafla 5A í norsku barnaverndarlögunum og leiðbeiningum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð fylgdarlausra barna. Einnig var vísað í „Guidelines on International Protection“ og „General Comment No. 6(2005) Treatment of Unaccompanied and Seperated Children Outside their Country of Origin“ frá nefnd Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Þessar reglur eru allar til þess fallnar að tryggja að réttindi fylgdarlausra flóttabarna samkvæmt alþjóðasamningum séu virt hér á landi sem og annars staðar.

Í upplýsingariti rannsóknarþjónustu Evrópuþingsins frá desember 2016 er skýrt frá því að samkvæmt mati Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) hafi fylgdarlaus flóttabörn í heiminum árið 2015 ekki verið undir 100 þúsundum. Fylgdarlaus flóttabörn sem hrekjast um Evrópu skipta tugum þúsunda og samkvæmt sömu heimildum hafa að minnsta kosti 10 þúsund fylgdarlaus flóttabörn horfið á vergangi í álfunni á síðustu árum. Það er gersamlega ólíðandi, sú tala er allt of há.

Börn eru ávallt í veikari stöðu en fullorðnir og ýmsar hættur sem ógna flóttabörnum sérstaklega hafa verið greindar af nefnd Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna. Meðal algengra brota gegn réttindum fylgdarlausra flóttabarna er að hindra inngöngu þeirra, halda þeim í gæsluvarðhaldi og láta undir höfuð leggjast að taka mál þeirra til meðferðar eða sniðganga kröfur um að málsmeðferðin miðist við aldur þeirra og kynferði. Mannréttindasamtökin Human Rights Watch hafa einnig margoft vakið athygli á bágri stöðu fylgdarlausra flóttabarna og m.a. bent á að oft séu framin á þeim réttindabrot með því að vista þau með ókunnugum fullorðnum einstaklingum í fangelsum eða á stöðum sem jafna má til fangelsa. Slíkt á að sjálfsögðu aldrei að viðgangast hér á Íslandi. Því er þessu frumvarpi ætlað að bæta úr.

Vandinn sem finna má í Evrópu, þessi skelfilegi vandi er varðar fylgdarlaus börn á flótta, hefur líka ratað til Íslands. Fylgdarlausum flóttabörnum í Evrópu hefur fjölgað mjög að undanförnu og sú þróun er einnig hérlendis. Samkvæmt upplýsingum frá Rauða krossinum á Íslandi komu 18 fylgdarlaus flóttabörn hingað til lands árið 2016. Sú tala hækkaði á síðasta ári, 2017, þó að endanleg tala sé ekki komin í mínar hendur, og þessi tala, 18 börn árið 2016, var tvöföldun frá því á árinu áður. Það endurspeglar þann mikla fjölda flóttamanna sem kom til Evrópu og kemur líka hingað.

Því miður bendir ekkert til þess að flóttamannavandi í Evrópu sé í rénun og verður að búast við því að á næstu árum komi hingað ótilgreindur fjöldi fylgdarlausra flóttabarna sem þarfnast aðstoðar íslensks samfélags og á svo sannarlega rétt á þeirri aðstoð samkvæmt þeim alþjóðlegum skuldbindingum sem Ísland hefur undirgengist. Það frumvarp sem ég mæli fyrir miðar að því að íslenskt samfélag uppfylli mikilvægar skyldur sínar gagnvart þessum varnarlausa hópi barna sem eru fylgdarlaus á flótta.

Ég vil þakka þeim þingmönnum sem eru með mér á þessu frumvarpi, sem eru Logi Einarsson, Halldóra Mogensen, Þorsteinn Víglundsson, Vilhjálmur Árnason og Halla Signý Kristjánsdóttir. Ég vil beina frumvarpinu til allsherjar- og menntamálanefndar og óska eftir góðu samstarfi við nefndina um framgang þess. Ég veit og er sannfærð um að þingmenn sem þar sitja munu taka frumvarpinu fagnandi og vinna það vel.